Tískurisinn Ralph Lauren þarf að greiða um 1,6 milljónir dala, jafnvirði tæpra 190 milljóna íslenskra króna, í sekt vegna mútugreiðslna dótturfyrirtækis tískuhússins í Argentínu. Bloomberg-fréttaveitan segir að upp hafi komist um mútugreiðslur tískuhússins í Argentínu á árunum 2005 til 2009 eftir innanhússrannsókn árið 2010. Tollvörðum var m.a. greitt mútufé til að fá þá til að loka augunum fyrir innflutningi á varningi sem ekki er alla jafna hleypt inn í landið og flýta fyrir tollafgreiðslu á öðrum vörum. Greiðslurnar fólust m.a. í því að tollvörðum voru gefnar dýrar vörur á borð við ilmvötn og handtöskur.

Bloomberg hefur eftir starfsmanni bandaríska fjármálaeftirlitsins að stjórnendur Ralph Lauren hafi brugðist rétt við eftir að upp komst um málið. Þeir hafi m.a. tilkynnt það til yfirvalda.