Tískuvöruverslunin Jane Norman opnaði í gær fyrstu verslun sína í Þýskalandi og er þetta flaggskip keðjunnar að sögn Kristins Más Gunnarssonar, forstjóra.

„Við erum búnir að vera að leita að húsnæði á þessari götu í tæpt ár og vildum opna fyrstu búðina okkar þar,“ segir Kristinn Már í samtali við Viðskiptablaðið en búðin opnaði á Hohestræti sem er ein helsta verslunargatan í Köln.

Jane Norman er í 35% eigu Baugs og 35% eigu Kaupþings. Þá á Kristinn Jón félagið Artic Group til helminga við Baug en félagið hefur það markmið að opna búðir þeirra fyrirtækja í þýskalandi sem Baugur er kjörfjárfestir í að sögn Kristinns.

Arctic Group rekur 34 búðir í þýskalandi undir merkjum Karen Millen, Oasis, Jane Norman og Warehouse.  Fjölga á búðunum um helming á þessu ári.

Verslunin hefur að sögn Kristins gengið mjög vel í Bretlandi keðjan var upprunalega stofnuð af Norman Freed árið 1952.

Kristinn segir að opnunin í gær hafi vakið mikla lukku og er bjartsýnn á framhaldið. Hann segir að þegar sé áætlað að opna alls 10 verslanir í Þýskalandi í lok þessa árs.

___________________________________

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu af þessari frétt var sagt að Kristnn Jón væri einn eiganda Jane Norman. Það er ekki rétt heldur á han eins og fram kemur helmingshlut í Artic Group.