Títan fjárfestingarfélag, sem er í 100% eigu Skúla Mogensen, tapaði 44,5 milljónum króna á árinu 2010. Eignir félagsins voru tæpir 1,2 milljarðar króna um síðustu áramót og voru nánast að öllu leyti í formi fastafjármuna. Þær höfðu hækkað úr 239 milljónum króna árið 2009. Skuldir félagsins eru svipaðar og eignir félagsins og nánast allar langtímaskuldir. Eigið fé Títans var einungis 35 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 sem skilað var inn til ársreikningaskráar í lok apríl síðastliðins. Títan leiddi hóp fjárfesta sem keypti starfsemi MP banka á Íslandi og í Litháen í apríl síðastliðnum. Títan er stærsti hluthafi bankans í dag með um 17,5% hlut. Nýju hluthafarnir greiddu 5,5 milljarða króna inn í nýtt hlutafé og þar af var hlutur Títans tæpur milljarður króna. Styrmir Þór Bragason var framkvæmdastjóri Títans þar til í mars í fyrra. Þá tók Baldur Oddur Baldursson við af honum.