Fjárfestingarfélagið Títan, sem er í eigu Skúla Mogensen, tapaði 435 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 35 milljóna króna tap árið á undan.

Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Skúli að tapið megi að mestu leyti rekja til taprekstrar WOW air á síðasta ári. Flugfélagið, sem er í 100% eigu Títans, tapaði 330 milljónum á síðasta ári.

Eignir félagsins nema 1.714 milljónum króna og nemur eigið fé tæplega 1.342 milljónum. Auk 100% hlutar í WOW air á Títan félagið TXK ehf., sem heldur utan um fasteign í eigu Skúla. Þá á félagið 30% hlut í Cargo Express og um 13% í Carbon Recycling International. Auk þess á Títan smærri eignarhluti í mörgum félögum.