*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 26. september 2019 10:23

Títan tapaði 4,7 milljörðum króna

Eigið fé er neikvætt um 43 milljónir króna en skuldir félagsins nema 1,1 milljarði.

Ritstjórn
Skúli Mogensen er eini hluthafi Títan Fjárfestingafélags ehf.
Haraldur Guðjónsson

Títan Fjárfestingafélag ehf., félag Skúla Mogensen og fyrrverandi móðufélag WOW air, tapaði tæplega 4,7 milljörðum króna á síðasta ári. Tapreksturinn þrefaldaðist frá árinu 2017 en þá tapaði það rúmlega 1,5 milljarði króna. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Sem kunnugt er varð WOW air gjaldþrota undir lok marsmánaðar þessa árs en Títan átti alla hluti í félaginu. Í ljósi gjaldþrots flugfélagsins var eignarhlutur í því færður til gjalda í rekstrarreikningi síðasta árs en gjaldfærslan nemur 6,4 milljörðum króna. Því til viðbótar eru færðar til gjalda 372 milljónir vegna ábyrgðarskuldbindinga og krafna vegna WOW.

Í upphafi árs 2018 átti Títan einnig 60% hlut í Cargo Express ehf. Í fyrra seldi Títan þann hlut fyrir 2,1 milljarð gegn því að fá nýtt hlutafé í WOW. Skiptastjórar þrotabús WOW hafa til skoðunar hvort hlutafé í Cargo Express hafi verið á yfirverði þegar greitt var fyrir hlutafé í WOW. Hið sama gildir um 107 milljóna króna arðgreiðslu sem Títan fékk frá WOW vegna Cargo Express í upphafi þessa árs.

Tekjur Títan tæplega tvöfölduðust á síðasta ári en það má að stærstum hluta rekja til söluhagnaðar á hlutnum í Cargo Express. Eignir félagsins nema rúmlega milljarði króna en voru fimm milljarðar árið 2017. Stærsta eignin er nú 606 milljóna króna kröfur á tengda aðila, þar af 594 milljóna króna kröfur á félög í eigu eina hluthafans. Þær kröfur hafa verið veðsettar lánastofnunum. Eigið fé félagsins er neikvætt um 43 milljónir króna en var árið 2017 4,6 milljarðar.

Skuldir félagsins nema 1,1 milljarði króna en þar af eru 406 milljónir króna við aðila sem tengjast félaginu. Aðrar skammtímaskuldir nema hins vegar 679 milljónum króna en voru 172 milljónir árið 2017. Handbært fé í árslok var rúmlega 4 milljónir króna.

Í skýringum við ársreikninginn er skuldabréfaútgáfu félagsins frá árinu 2012 getið en nafnvirði þeirra bréfa er 2,1 milljarður. Vexti skyldi greiða árlega en höfuðstólinn skyldi greiða niður á fimm árum frá og með árinu 2018.  Í lok árs 2013 var ákvæðum þeirra breytt þannig að þau urðu víkjandi fyrir öðrum skuldum, útgefanda var gert heimilt að fresta vaxtagreiðslum og gert einhliða heimilt að breyta skuldabréfunum í hlutafé á genginu 10.

„Í ljósi þessa var skuldin endurflokkuð sem eigið fé þar sem útgefandi hefur einhliða rétt á að gera skuldabréfið upp með hlutafé á föstu gengi. Félagið getur valið að greiða vextina í reiðufé eða gefa út hlutafé,“ segir í skýringunni.

Áfallnir vextir til októberloka 2015 nema 322 milljónum og eru færðir sem annað innborgað eigið fé. Í október 2015 ákvað félagið að vextir skyldu greiddir og áfallnir vextir frá þeim tíma til ársloka 2017 færðir í rekstrarreikning sem skuld meðal skammtímaskulda. Vextir voru ekki gjaldfærðir vegna ársins 2018.

Stikkorð: Skúli Mogensen Títan WOW