Mikill titringur var á Bandarískum hlutabréfamörkuðum í gær eftir afkomuviðvörun Snap Inc., móðurfélag Snapchat, á mánudaginn. Við lokun markaða í gær hafði Snap fallið um 43% sem er mesta lækkun félagsins frá upphafi. Önnur tæknifyrirtæki lækkuðu einnig í kjölfarið. Móðurfélag Google, Alphabet, lækkaði um 5%, Meta Platforms lækkaði um 7,6% og Tesla lækkaði um 6,9%.

Það sem af er þessu ári hefur S&P 500 vísitalan lækkað um 17% og Nasdaq Composite vísitalan lækkað um 28%, en vægi tæknifyrirtækja í henni er hátt. Lækkanirnar koma í kjölfar ákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna um að hækka vexti til að sporna við vaxandi verðbólgu sem mældist nú 8,3% og hefur ekki mælst hærri í fjóra áratugi. Stýrivextir voru hækkaðir úr 0,5% í 1% í upphafi mánaðarins og búast fjárfestar við frekari hækkunum á næstunni.

Merki eru um minnkandi hagvöxt í Bandaríkjunum, evrusvæðinu, Bretlandi og Ástralíu ef marka má könnun S&P Global á þjónustufyrirtækjum í áðurnefndum löndum. Samkvæmt könnunni sögðu innkaupastjórar að verksmiðjur í stærstu hagkerfum heims standi frammi fyrir hnökrum í aðfangakeðjum vegna fjölgunar Covid-19 smita, sóttvarnaraðgerðum í Kína, stríðinu í Úkraínu ásamt hærri eldsneytiskostnaði og hækkandi launum.

Sala á nýbyggðum íbúðum í Bandaríkjunum minnkaði fjórða mánuðinn í röð í apríl en þann mánuð var árstíðaleiðrétt sala á íbúðum tæplega 17% minni en mánuðinn áður. Sala nýrra íbúða ekki verið minni í Bandaríkjunum við upphaf faraldursins í apríl 2020.

Fjárfestar hafa í auknum mæli verið að færa sig úr tæknifyrirtækjum sem hafa hækkað sérstaklega mikið undanfarin tvö ár yfir bréf í félögum sem greiða stöðugan arð til hluthafa. Hækkandi vextir gera það að verkum að fjárfestar kjósa frekar að eiga í félögum með stöðugar arðgreiðslur til hluthafa í náinni framtíð fram yfir bréf sem lofa hærri ávöxtun lengra fram í tímann. Það er mikil breyting frá þróun undanfarinna tveggja áratuga þar sem fjárfestar hafa hallast meira að félögum sem greiða út arð með kaupum á eigin bréfum, ef þau greiða út arð yfir höfuð. Það sem af er ári hefur S&P 500 High Dividend vísitalan hækkað um 3,6% en S&P 500 Buybacks vísitalan lækkað um 13%.