Rautt er yfir að litast í Kauphöllinni eftir fyrstu viðskipti dagsins. Þegar þetta er skrifað hefur gengi 19 félaga af 22 sem skráð eru á aðalmarkað lækkað. Heildarvelta á markaði í dag nemur tæpum milljarði króna, en helmingur af veltunni er viðskipti með bréf bankanna þriggja á markaði.

Bankarnir hafa lækkað verulega í viðskiptum dagsins, Arion banki mest þeirra eða um 3,7% í 480 milljóna veltu. Kvika banki hefur lækkað um 3,3% í 75 milljón króna viðskiptum og þá nálgast Íslandsbanki óðum söluverðið í útboði Bankasýslunnar í mars. Gengi bréfa bankans hefur lækkað um 3,3% það sem af er degi og stendur í 117,8 krónum.

Iceland Seafood og Icelandair hafa lækkað mest allra félaga á markaði. Fyrrnefnda félagið um 4,5% í 12 milljóna veltu og Icelandair um 4,7% í 90 miljóna veltu.

OMXI10 úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2% þegar þetta er skrifað. Hagar hafa lækkað um 4,2% það sem af er degi, Skel um 3,7%, Vís um 2,3%, Sjóvá um 1,9%, Ölgerðin og Síminn um 1,8%, Festi um 1,7%, Marel um 1,35% og Eimskip um 1,2%

Lækkanir á íslenska markaðnum er í takt við þróunin erlendis. Breska FTSE 100 vísitalan hefur lækkað um hálft prósent frá opnun markaða. Þá lækkaði hin evrópska Stoxx Europa 600 vísitala um 1,3% við opnun markaða en hefur þó tekið við sér.

Gengi Credit Suisse aldrei lægra

Gengi bréfa stórra alþjóðlegra banka á borð við Credit Suisse og Deutsche Bank hefur hríðfallið að undanförnu. Gengi bréfa Deutsche Bank hefur lækkað um 35% frá áramótum og um 13% síðastliðna vikuna.

Skuldatryggingarálag Credit Suisse til fimm ára hefur aldrei verið hærra, á sama tíma og virði hlutabréfa í félaginu hefur aldrei verið lægra. Þá hefur álagið hækkað um meira en 100 punkta það sem af er degi, að því er kemur fram í grein Financial Times. Gengi bréfa félagsins fallið um 60% frá áramótum og 25% síðastliðinn mánuð.

Nýlegar tilraunir Ulrich Koerner, forstjóra svissneska bankans, til að róa markaðinn höfðu þveröfug áhrif. Hann sendi minnisblaði um helgina á starfsfólk bankans þar sem hann fór yfir eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans. Þar viðurkenndi hann þó að bankinn stæði frammi fyrir miklum áskorunum.