Hlutabréf hafa lækkað það sem af er degi, bæði erlendis sem og hérlendis. FTSE 100 vísitalan, sem inniheldur 100 stærstu skráðu fyrirtækin í kauphöll London, hefur lækkað um tæplega þrjú prósent í dag þegar þetta er skrifað. STOXX 600 vísitalan, sem nær til sautján evrópskra landa, hefur lækkað um ríflega þrjú prósent.

Í frétt Financial Times um málið er greint frá því að lækkunina megi rekja til nýs afbrigðis af kórónuveirunni og að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu hafi lækkað hvað mest. Til að mynda hafa hlutabréf móðurfélags British Airways, IAG, lækkað um tæplega 12%. Franska hlutabréfavísitalan CAC 40 hefur lækkað um 3,6% og þýska hlutabréfavísitalan DAX um 3,9%.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt hertar aðgerðir sökum útbreiðslu kórónuveirunnar. Þegar þetta er skrifað hefur gengi pundsins lækkað um 1,5% gagnvart íslensku krónunni og fæst nú á ríflega 170 krónur en í upphafi árs fékkst pundið á 161 krónu. Gagnvart Bandaríkjadollara hefur pundið lækkað um 2%.

Hér heima hefur Úrvalsvísitalan (OMXI10) lækkað um 1,42% það sem af er degi í tæplega 700 milljóna króna viðskiptum. Mest hafa hlutabréf Icelandair lækkað eða um 5,66% og standa þau í 1,54 krónum. Næst mest hafa bréf Icelandic Seafood lækkað eða um 3,13%.