Heimsmarkaðsverð á hráolíu féll um rúm 3,0% á fjármálamörkuðum í dag. Skýringin liggur í ummælum George Papandreús, forsætisráðherra Grikklands, sem lagði til í gær að björgunaráætlun leiðtoga ESB-ríkjanna eigi að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi.

Tillagan hefur verið sem olía á eld alþjóðlegra efnahagsmála í dag og aðeins til þess fallin að gera illt verra. Á sama tíma hafa komið fréttir af hægari hagvexti í Kína og Bretlandi sem geti leitt tl samdráttar í neyslu, þar með minni eftirspurn eftir eldsneyti og olíu. Vart er talið á það bætandi ef Grikkir telja það ekki nóg að lánardrottnar þeirra afskrifi helminginn af öllum skuldum gríska ríkisins með tilheyrandi áföllum fyrir önnur aðildarríki ESB. Niðurstaðan gæti valdið því að gríska ríkið lendi í greiðslufalli og verði í kjölfarið sparkað úr hópi evru-ríkjanna.

Gengi hlutabréfa hefur hríðfallið víða um heim eftir ummæli gríska forsætisráðherrans.

Heimsmarkaðsverð á Norðursjávarolíu hefur lækkað um 2,7 dali og fór verðið niður í 106,86 dali á tunnu um miðjan dag á meginlandi Evrópu. Verðið er engu að síður enn yfir meðalverði á Norðursjávarolíu síðustu 300 daga. Það stendur í 104,06 dölum á tunnu.

Þá lækkaði verð á hráolíu um 3,03 dali niður í 90,16 dali á tunnu. Lækki olíuverði um einn dollar fer það undir 100-daga meðaltalið sem liggur nú í 89,53 dölum á tunnu.