„Þetta eru óheppileg tengsl, að svo margir nefndarmenn komi frá einu fjármálafyrirtæki. Ég hef orðið þess var að þetta hefur þegar vakið spurningar á markaði og mikilvægt að menn eyði öllum efasemdum sem tengjast hinum mikilvægu verkefnum nefndarinnar,“ segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að titringur sé innan fjármálastofnana vegna fjölda MP bankamanna í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta, en þrír af sjö meðlimum hópsins koma frá bankanum. Það hafi vakið upp spurningar um hvort heilbrigt sé að sækja í sama brunninn eftir ráðgjöfum.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir í samtali við Fréttablaðið að mikilvægt sé að þeir sem komi að vinnu hópsins hafi þá þekkingu sem til þurfi og séu ekki að vinna fyrir slitastjórnir á öðrum vettvangi. Hins vegar sé vissulega mikilvægt að ekki sé vantraust í þessum efnum.

Sigurður G. Valgeirsson, upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins, segir að stofnuninni sé kunnugt um málið.