Fjármálaeftirlitið (FME) og Seðlabanki Íslands (SÍ) eru nú að kanna hver áhrif dóms Hæstaréttar, vegna gengisbundinna lána hjá Frjálsa fjárfestingabankanum, getur verið á fjármálakerfið. Hæstiréttur ítrekaði í dómi sl. mánudag vegna gengisbundins láns að gengistrygging lána væri ölögleg.

Slitastjórn Frjáls fjárfestingarbankans sendi frá sér tilkynningu í gær vegna þessa, og sagði að dómur Hæstaréttar hefði mun víðtækari skírskotun en lögin sem samþykkt voru í desember í fyrra. Dómurinn segði til um að gengistrygging lána væri ólögleg, óháð því hvort lántakinn væri fyrirtæki eða einstaklingur.

Í tilkynningu frá slitastjórn Frjálsa vegna þessa segir m.a.:

„Varðandi úrlausn um vexti í málunum vísaði Hæstiréttur til fordæmis réttarins frá 16. september sl. Lagði rétturinn til grundvallar að reikna bæri lánin miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá upphafsdegi.

Niðurstaða Hæstaréttar er mun víðtækari en lög sem sett voru á Alþingi í desember sl., en samkvæmt þeim var einungis skylt að endurreikna gengistryggð vaxtabótahæf íbúðalán til einstaklinga. Niðurstaða Hæstaréttar tekur hins vegar til allra „gengistryggðra“ lána bankans óháð því hver lántakandinn var eða tilgangur lántökunnar.“

Þau svör hafa fengist frá FME og SÍ að þessi mál séu til skoðunar. Viðskiptablaðið hefur þegar sent formlegar fyrirspurnir til FME og SÍ vegna málsins. Frá FME hafa þau svör fengist að eftirlitið sé að fara yfir efnisatriði í nýföllnum dómi Hæstaréttar og geti því ekki tjáð sig um túlkanir einstakra aðila að sinni.

Stóru bankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa svarað því til í morgun að málin séu til skoðunar innan bankanna. Frá Íslandsbanka hafa þau svör fengist, að samningar Íslandsbanka séu aðrir að formi til  en hjá Frjálsa. Því hafi dómur Hæstaréttar ekki áhrif á lánasamninga bankans, að mati lögfræðinga hans.

Í fréttatilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, frá því 16. september í fyrra, kom fram að gengisbundin lán til fyrirtækja væru áætluð 841 milljarður króna. Lán til einstaklinga, sem lögin frá því desember sl. taka til, námu þá 186 milljörðum. Miklir hagsmunir eru því í húfi fyrir fjármálakerfið enda virði gengisbundinna lána til fyrirtækja, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins, margfalt meira en sem nemur eigin fé allra bankanna. Þó er ljóst að þegar hefur átt sér stað mikil niðurfærsla á gengistryggðum lánum eða lánum í erlendri mynt, m.a. í tenglsum við endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær, að fjármálakerfið ætti að þola höggið af frekari niðurfærslu gengisbundinna lána til fyrirtækja, ef til þess kemur.