*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 23. október 2021 12:49

Titringur vegna þrálátari verðbólgu

Forseti ASÍ segir að umsamdar launahækkanir verði að standa svo að laun haldi í við verðhækkanir. Forstöðumaður hjá SA óttast að hækkun launa leiði til lítils annars en enn hærri verðbólgu og hærri vaxta.

Guðný Halldórsdóttir
Drífa Snædal og Anna Hrefna Ingimundardóttir hafa áhyggjur af verðbólgu
HAG/Eyþór

Í nýrri hagspá Landsbankans spáir bankinn 5,1% hagvexti á þessu ári og 5,5% hagvexti á því næsta, en að í kjölfarið hægist á hagkerfinu og hagvöxtur verði nær 2%. Samhliða hagvextinum nái verðbólga hámarki í 4,5% í árslok og hjaðni síðan niður í 3% í árslok 2022 og nái loks niður fyrir verðbólgumarkmið á þriðja fjórðungi 2023. Í því samhengi telur Landsbankinn að stýrivextir verði hækkaðir upp í 4,25% þar til verðbólgumarkmiði er náð og fari þá lækkandi.

Gæti verið bjartsýn spá

Lítið þarf út af bregða til að verðbólga verði jafnvel umfram spár Landsbankans. „Það gæti verið bjartsýni að verðbólgan verði svo skjót að hjaðna. Við megum ekki gleyma því að við búum einnig við sveiflukenndan gjaldmiðil. Utanríkisviðskiptin, svo sem endurreisn ferðaþjónustu, og þróun gengisins mun hafa talsvert að segja um þróun verðlags hér á landi á næstu misserum," segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Ofan á þetta leggjast launahækkanir, en Landsbankinn spáir því að launavísitala verði 22% hærri í árslok 2022 en hún var í ársbyrjun 2020. Ljóst sé að kröfur um að ná til baka hugsanlegri kjararýrnun vegna verðbólgu í gegnum launahækkanir gætu leitt til enn frekari verðbólgu og aukins atvinnuleysis.

 „Almennt er lítið eða ekkert svigrúm til launahækkana og sagan sýnir að ef framleiðniaukning fylgir ekki launahækkunum munu þær að endingu skila sér út í verðlagið," segir Anna Hrefna.

Launahækkanir rétt haldi í við verðbólgu

„Við óttumst að þær launahækkanir sem eru framundan séu bara rétt til að halda í við kaupmátt," segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. Að sögn hennar kemur ekki til greina að endurskoða hinn svokallaða hagvaxtarauka í kjarasamningum, sem gerir ráð fyrir umfram launahækkunum eftir því sem hagvöxtur á mann eykst. Ljóst er að 5% hagvöxtur næstu tvö ár myndi knýja fram hámarks hagvaxtarauka þrátt fyrir 6,6% samdrátt í fyrra.

„Því hefur oft verið haldið fram að hækkun launa dragi fram verðbólgu, en það er líka hægt að halda því fram að hækkun launa sé til að bregðast við verðbólgu. Hins vegar var samið um hagvaxtarauka og það var ákveðið að segja ekki upp kjarasamningum þótt forsendur hefðu brostið. Þar með stendur hagvaxtaraukinn líka - augljóslega," segir Drífa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér