Engan þarf að undra að margir ásælast hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja (HS) enda eru orkumálin á hvers mans vörum um þessar mundir. Eins og kunnugt er hefur einkavæðingarnefnd hafið söluferli á rúmlega 15% hlut ríkisins í HS og er áætlað verðmæti hlutarins á bilinu 2,5 til 4 milljarðar króna.

Tíu aðilar hafa lýst yfir bindandi áhuga á að kaupa hlutinn en frestur til þess að skila inn tilboðum rann út í byrjun þessa mánaðar.

Orkuiðnaðurinn er vaxandi atvinnugrein eins og sést best á því að nýlega voru tvö ný orkufyrirtæki stofnuð hér á landi, Geysir Green Energy og HydroKraft Invest. Margir sjá mikil tækifæri í orkugeiranum um þessar mundir og sá hópur fer vaxandi sem telur að löngu sé orðið tímabært að einkavæða orkugeirann hér á landi.

Á Iðnþingi í lok mars sagði Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans að nú væri rétti tíminn runnin upp að hefja einkavæðingu orkugeirans hér á landi. Sigurjón líkti núverandi aðstæðum við þær sem ríktu þegar einkavæðing bankanna hófst hér á landi.



Stórðiðjustopp myndi setja orkugeirann á hliðarlínuna

Atorka Group, Askar, Geysir Green Energy, Norvest, Saxbygg og Base eru í hópi þeirra fyrirtækja sem hafa skilað inn tilboðum auk þess sem eitt breskt fyrirtæki hefur skilað inn tilboði og þrír mismunandi hópar heimamanna af Reykjanesi. Þrátt fyrir þennan mikla áhuga einkaaðila er ekki einhlítt að 15% hlutur ríkisins endi í höndum einhvers þeirra. Núverandi hluthafar (sveitarfélög á Reykjanesi og víðar) hafa forkaupsrétt í samræmi við eignarhlut sinn.

Júlíus Jón Jónsson forstjóri HS sagði í samtali við Viðskiptablaðið að vissulega væri það gott til lengri tíma litið fyrir HS að fá inn fjársterkan einkaaðila.

"Ef við leggjum upp í stór áform á næstu misserum þá þurfum við að vera með hlutahafa sem eru tilbúnir að koma með fé inn í fyrirtækið. Það vita það allir sem vilja vita að sveitarfélögin hafa ekki mikla getu til að setja fjármuni í stór verkefni á þessu sviði. Ef að starfsemin helst hinsvegar óbreytt og innan landsteinanna þá er eignarhaldið ekki lykiatriði," sagði Júlíus.

Að hans mati munu niðurstöður kosninganna og afstaða komandi ríkisstjórnar til verkefna í orkugeiranum hafa úrslita áhrif á hvernig framtíðarumhverfi orkufyrirtækjanna verður.

"Ef fram undan er stóriðjustopp þá mun einkaframtak í orkugeiranum nýtast lítið enda munu slíkar aðgerðir setja þessa atvinnugrein á hliðarlínuna. Í þeim aðstæðum myndi aðkoma einkafyrirtækjanna helst nýtast í útrás sem við höfum verið lítið í hingað til,"sagði Júlíus.

Hyggst nýta forkaupsréttinn

Stærsti hluthafi HS er Reykjanesbær sem á nærri 40% hlut. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að Reyknesbær hafi lýst yfir fullum vilja til þess að nýta forkaupsrétt sinn í HS. "Endanleg ákvörðun þess efnis hefur hinsvegar ekki verið tekin enda óvíst hvert endanlegt verð hlutarins verður," sagði Árni.

Eftir að ljóst er hver býður hæst hafa núverandi hluthafar tvo mánuði til að ákveða hvort forkaupsréttur verði nýttur. Í kjölfarið getur hluthafi tekið yfir kaupsamningin á sömu skilmálum og kjörum og hæstbjóðandi bauð. Áætlað er að verðið sé einhverstaðar á bilinu 2,5 til 4 milljarðar króna. Aðspurður sagði Árni þessa upphæð vera nærri raunverði.

"Við sem þekkjum til reksturs HS og þeirra framtíðartækifæra sem bíða vitum að þetta er síst vanmat," sagði Árni. En auðvitað er alls óljóst hver niðurstaða útboðsins verður bætti hann við.

Árni sagði þær breytingar sem fram undan eru í hluthafahópnum vera afar mikilvægar. "Það er mikilvægt að þeir aðilar sem koma með okkur í þetta verkefni hafi eitthvað fram að færa svo sem fagþekkingu og áhuga á framþróun hitaveitunnar, það liggur alveg ljóst fyrir. Við hljótum að leggja áherslu á að slíkir aðilar verði fyrir valinu," sagði Árni.