Ísafoldarprentsmiðja og 365 miðlar hafa endurnýjað samning sín á milli um prentun Fréttablaðsins og gildir sá samningur til næstu tíu ára.

Ari Edwald, forstjóri 365, segir að þessi samningur útiloki þó ekki að áfram verði reynt að finna fleti á mögulegu samstarfi við Árvakur um prentun og dreifingu.

Ef út í það yrði farið yrði Ísafoldarprentsmiðja einnig dregin að því borði. Samkeppniseftirlitið hefur sem kunnugt er sett ströng skilyrði fyrir samstarfi Árvakurs og 365 á umræddu sviði.

Ari segir að hefði samstarf þessara aðila verið samþykkt hefðu tveir ríkisbankar ekki þurft að afskrifa milljarða af skuldum Árvakurs. Það væri reikningurinn sem samkeppnisyfirvöld hefðu með ákvörðun sinni sent skattgreiðendum.

Kristþór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju, er ánægður með tíu ára samninginn við 365 miðla. Samningurinn sé óuppsegjanlegur. Hann segir að samningurinn tryggi áframhaldandi störf tólf starfsmanna hjá prentsmiðjunni. Um áttatíu manns starfa hjá Ísafoldarprentsmiðju.