Síminn hyggst veita þeim tíu bæjarfélögum sem söfnuðu fyrir sendum, til þess að eiga möguleika á Skjá 1 og þar með horfa á enska boltann, ákveðinn forgang við uppbyggingu á sjónvarpsþjónustu yfir ADSL kerfi sín. Bæjarfélögin hafa sýnt mikinn áhuga á því að fylgjast með boltanum og því hefur verið ákveðið að koma til móts við óskir þeirra og gerist það vonandi fyrir jól. Staðirnir sem um ræðir eru Bolungarvík, Patreksfjörður, Fáskrúðsfjörður, Bíldudalur, Stykkishólmur, Ólafsvík, Ólafsfjörður, Grundarfjörður, Vopnafjörður, Hvammstangi og Djúpivogur.

Við dreifingu sjónvarps mun Síminn nota bæði hefðbundnar símalínur með DSL tækni, sem og ljósleiðarakerfi sitt, hið svokallaða breiðband Símans. Að mati stjórnenda Símans mun sjónvarpsþjónusta leika lykilhlutverk við að auka útbreiðslu ADSL á landsbyggðinni. Í framhaldi af kaupunum í Skjá 1 hefur Síminn þegar hafið undirbúning að lagningu ADSL í nokkrum bæjarfélögum með undir 500 íbúa, Búðardal, Flateyri, Suðureyri, Flúðum, Kirkjubæjarklaustri og Djúpavogi. Eftir því sem kerfið er betur nýtt og eftir því sem meiri og fjölbreyttari þjónusta streymir um það, þeim mun fámennari geta þau byggðarlög verið þar sem arðbært verður að setja upp þann dýra búnað sem felst í háhraðanetum. Síminn sér fram á að geta ADSL-vætt 95% heimila með hagkvæmum hætti, eftir að gagnvirku sjónvarpi hefur verið hrundið af stokkunum.