Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall þar sem tíu valin fyrirtæki í ferðaþjónustu fá tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Startups.

Umsóknarfrestur í Startup Tourism rennur út 16. janúar næstkomandi en verkefnið er nú haldið í annað sinn. Startup Tourism er samstarfsverkefni Icelandic Startups, Bláa Lónsins, Íslandsbanka, Vodafone, Isavía og Íslenska ferðaklasans og þar er leitað að afþreyingar- og tæknilausnum og lausnum sem styrkja innviði greinarinnar.

„Meðal fyrirtækja sem tóku þátt í verkefninu í fyrra voru fyrirtækin Jaðarmiðlun sem ætla að vekja álfa til lífsins með aðstoð sýndarveruleika, Bergrisi sem þróar hugbúnað og vélbúnað sem auðveldar sölu að hverskyns þjónustu eins og salernum og bílastæðum og Coldspot sem býður upp á stafrænar afeitrunar ferðir (digital detoxing) á Vesturlandi,“ segir jafnframt í tilkynningunni.