Þau tíu fyrirtæki sem voru með mestu rekstrartekjurnar árið 2011 voru með 755 milljarða króna í tekjur, sem eru um 22,5% tekna fyrirtækja. Þetta kemur fram í greiningu Páls Kolbeins á skattframtölum fyrir gjaldaárið 2011. Greining Páls er birt í nýútkominni Tíund, fréttabréfi embættis ríkisskattstjóra.

Fyrirtæki sem skráð eru í aðra fjármálastarfsemi veltu mestu allra skattskyldra fyrirtækja árið 2011. Undir þessa atvinnugrein falla nú 21 fyrirtæki sem veita þjónustu sem ekki er undanþegin virðisaukaskatti. Samanlagt voru fyrirtækin með tæpa 399 milljarða í rekstrartekjur. Þrjú þessara fyrirtækja voru ekki með neinar tekjur árið 2011. Hér er um að ræða 11,9% rekstrartekna fyrirtækja í landinu.

Álfyrirtæki veltu 227 milljörðum

Páli finnst athyglisvert að fjögur félög í álframleiðslu veltu 227 milljörðum, sem eru um 6,7% heildarveltu fyrirtækja. Þá veltu 89 fyrirtæki sem starfa við frystingu fiskafurða, krabbadýra og lindýra um 163 milljörðum, sem eru um 4,9% seldrar vöru og þjónustu í landinu.

„Það er athyglisvert að 1.478 fyrirtæki í þeim 10 atvinnugreinum sem velta mestu standa undir 42,9% allrar seldrar vöru og þjónustu í landinu. Þá er það ekki síður athyglisvert að þau 10 fyrirtæki sem voru með mestu rekstrartekjurnar árið 2011 voru með 755 milljarða í tekjur, sem eru um 22,5% tekna fyrirtækja,“ segir Páll í grein sinni.