Uppbygging nýs hverfis í Kópavogi er að hefjast. Hverfið, sem nefnist Glaðheimar, er austan Reykjanesbrautar við Linda- og Smárahverfi. Í tilkynningu frá Kópavogsbær segir að nýja hverfið hafi þá sérstöðu að öll þjónusta sé þegar til staðar. Í næsta nágrenni séu skólar, leikskólar, þróttaaðstaða, sundlaug, verslanir og verslunarmiðstöðin Smáralind.

„Lagt er upp með að þéttleiki byggðar verði mikill í hverfinu og gera bæjaryfirvöld kröfu um að þar muni rísa byggð þar sem vandað er til hönnunar og útlits húsa og lóða," segir í tilkynningu. „Lögð verður áhersla á almannarými, góðar almenningssamgöngur og góða upplifun íbúa af nærumhverfinu."

Í fyrsta áfanga verður byggingarétti úthlutað á tíu lóðum. Á þeim verða byggð níu fjölbýlishús með samtals um 260 íbúðum. Á bilinu 11 til 40 íbúðir verða í hverju húsi.

Gert er ráð fyrir að hæstu húsin verði 10 hæðir en annars verði þau að jafnaði 4 til 6 hæðir. Flest húsin verða með bílakjallara. Stefnt er að því að lóðirnar verði byggingarhæfar í júlí og þá geta framkvæmdir hafist. Umsóknarfrestur á byggingarétti er til 3. mars.

„Það er spennandi að hefja uppbyggingu á nýju hverfi í Kópavogi og ég er þess fullviss að Glaðheimahverfið verður eftirsótt fyrir fjölskyldufólk strax frá fyrsta degi," segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs í tilkynningu. „Það er allt til staðar í þessu nýja hverfi , það er miðsvæðis og öll þjónusta er fyrir hendi. Þá leggjum við ríka áherslu á hönnun og útlit í uppbyggingu hverfisins þannig að útkoman verður glæsilegt hverfi í hjarta höfuðborgarsvæðisins."