Gulleggið, stærsta frumkvöðlakeppni landsins, fer fram á tímabilinu janúar til mars ár hvert. Keppnin er haldin á vegum Icelandic Startups í samstarfi við stærstu háskóla landsins með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi.

Í ár bárust í keppnina 123 viðskiptahugmyndir og þar af 45 viðskiptaáætlanir. Hátt í 100 manna rýnihópur skipaður til jafns konum og körlum með fjölbreyttan bakgrunn las hugmyndirnar yfir. Tíu stigahæstu hugmyndirnar hafa nú verið valdar;

Barnamenningarhús - Samastaður barnamenningar á Íslandi, staður þar sem börn geta upplifað ólíkar listgreinar og fengið útrás fyrir sköpunarþörfina á sínum forsendum.

BlissApp – Samskiptaapp fyrir fólk sem notar óhefðbundin tjáskipti.

Eiderway, undir vörumerkinu S. Stefánsson & Co. - Tískufyrirtæki með áherslu á æðardúnseinangraðan útvistarfatnað.

Fjölskyldumyllan - Ráðgjafafyrirtæki sem fræðir og ráðleggur foreldrum um allt það er kemur að uppeldi barna og unglinga.

HappaGlapp - App sem gefur! Skafmiðaleikur í gegnum smáforrit.

Lab Farm - Sharing computational resources through the academic community.

League Manager - Tournament management through a mobile application.

Procura Home - Vefrænt sölu- og verðmatskerfi fasteigna.

Project Monsters - Video game designed to speed up skill acquisition.

SAFE Seat – Fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi.

Síðar þann dag fer fram lokahóf Gulleggsins í Hörpu þar sem tilkynnt verður um sigurvegarana árið 2017 og fagnað verður 10 ára afmæli keppninnar í ár. Farið verður yfir sögu keppninnar og sjónum beint að árangri fyrirtækja sem hafa áður tekið þátt.

Frá því í janúar hafa þátttakendur sótt vinnusmiðjur þar sem þeir hafa fengið leiðsögn og fræðslu til að þróa hugmyndir sínar áfram þannig að eftir standi raunhæfar og vandaðar áætlanir.

Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en frá þeim tíma hafa um 2500 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg fyrirtæki sem náð hafa eftirtektarverðum árangri hafa stigið sín fyrstu skref í Gullegginu. Þar á meðal má nefna Meniga, Karolina Fund, Videntifier, Clara, Controlant, Nude Magazine, Solid Clouds, Radiant Games, Betri svefn, Pink Iceland, o.fl.

Við framkvæmd Gulleggsins nýtur Icelandic Startups liðsinnis fjórtán sjálfboðaliða úr röðum nemenda samstarfsháskólanna; HR, HÍ, Bifröst og LHÍ.

Bakhjarlar Gulleggsins eru Landsbankinn, KPMG, Marel, NOVA, ADVEL Lögmenn og Alcoa Fjarðarál.