Ráðstefnan Global Summit of Women er haldin 5-7. júní í París í Frakklandi. Tíu íslenskar konur sækja ráðstefnuna um þessar mundir. „Konur að endurhanna hagkerfi og þjóðfélög“ er þemað í ár. Á hverju ári sækja um 1000 konur ráðstefnuna, en í ár eru 1200 konur úr atvinnulífinu frá yfir 80 löndum þangað mættar. Þær eru frumkvöðlar, forstjórar, fulltrúar frjálsra félagasamtaka eða fjármálastofnana og konur sem starfa á stjórnmálasviðinu svo eitthvað sé nefnt.

The Global Summit of Women var stofnað sem alþjóðlegt rými fyrir konur á öllum starfssviðum, hinu opinbera, einkageiranum og sjálboðaliðastörfum, til að koma saman undir því sjónarmiði að víkka efnahagsleg tækifæri kvenna alþjóðlega í gegnum lausnir og skapandi hugmyndir kvenleiðtoga frá öllum heimshornum. Þetta er viðskiptaþing sem hefur eflingu kvenna í alþjóðlega efnahagslífinu að leiðarljósi.

Einstaklega jákvæðir í garð Íslendinga

Aðspurð um viðmótið gagnvart íslenskum konum á ráðstefnunni segir Þórdís Lóa, formaður Félags Kvenna í Atvinnulífinu, alla ráðstefnugesti vita að Ísland er í fyrsta sæti yfir kynjajafnrétti samkvæmt lista World Economic Forum. Hún segir Norðurlöndin vera sér á báti þegar kemur að jafnréttismálum og segir vera litið mikið til þeirra. Hún segir einnig Íslendinga vera sýnilegan hóp á ráðstefnunni þrátt fyrir að einungis tíu íslenskar konur séu á ráðstefnunni.

Fyrir hönd Félaga kvenna í atvinnulífinu voru viðstaddar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður Félgas Kvenna í Atvinnulífinu (FKA); Rúna Magnúsdóttir frá Connected Women og Spyr.is, Karítas Kjartansdóttir, ráðstefnustjóri Hörpu; Jónína Bjartmarz, framkvæmdastjóri Iceland Europe Travel Partnership; Inga Sólnes, Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA, og Brynja Laxdal markaðsstjóri Meet in Reykjavík.

Frábært tækifæri til að stækka tengslanetið

„Það eru 1200 konur hér frá yfir 80 löndum, þannig að fjölbreytileikinn er óhugnalega flottur, það eru stórir hópar frá Kína, Malasíu, Kamerún fyrir utan Evrópubúana og stóra hópa frá Bandaríkjunum. Það getur hver sem er skráð sig en uppselt var á ráðstefnuna og 250 manns komust ekki að. Þetta er merkileg ráðstefna að því leitinu til að þar mætast viðskiptaleiðtogar, stjórnmálamenn og opinberir starfsmenn á vettvangi. Fjölbreytileikinn var stórkostlegur, segir Þórdís Lóa. Þetta er stórkostlegt tækifæri til að stækka tengslanetið,“ segir Þórdís Lóa. Hún segir íslenska hópinn búinn að gera það verulega gott.

Panel um konur í fjölmiðlum stóð upp úr

Aðspurð segir Þórdís það hafa staðið upp úr á ráðstefnunni að ræða forseta Kósóvó Atifete Jahjaga um Balkanslöndin hafi verið sérstaklega flott.

Einnig benti Þórdís Lóa til pallborðsumræðna um fjölmiðla þar sem aðstandendur frá Elle, Bloomberg og framkvæmdastjóri kvikmyndasjóðs Svíþjóðar ræddu um stöðu kvenna í fjölmiðlum og m.a. við hvern blaðamenn ráðfæra sig t.d. þegar verið er að fjalla um efnahagsmál.

„Þetta var sérstaklega viðeigandi fyrir starfsemi FKA þar sem þau eru í fjögurra ára verkefni um konur og fjölmiðla. Við fengum mjög góða punkta og ég spurði nokkura spurninga og fékk mjög góð svör sem við munum nýta okkur næstu þrjú árin í verkefninu,“ segir Þórdís Lóa.