Málin tíu sem Fjármálaeftirlitið hefur vísað til sérstaks saksóknara tengjast m.a. innherjaviðskiptum, markaðsmisnotkun og slæmum viðskiptaháttum. Þetta segir Gunnar Þ. Andersen, forstjóri FME, í samtali við Viðskiptablaðið.

Auk þeirra tíu sem þegar hefur verið vísað til sérstaks saksóknara eru önnur fimm til sex í farvatninu, segir Gunnar. „Þar fyrir utan erum við að rannsaka mörg mál," segir hann.

Gunnar vill ekki gefa nánari upplýsingar um þau mál sem vísað hefur verið áfram - né heldur hvaða aðilar eigi þar hlut að máli. Hann minnir á að hver maður sé saklaus þar til sekt sé sönnuð.