Sóttvarnarreglur verða hertar á miðnætti og fjöldatakmarkanir lækka úr 20 í 10 manns. Krám, spilasölum og skemmtistöðum sem ekki eru veitingarstaðir verður gert að loka tímabundið. Á móti verður m.a. gripið til lokunarstyrkja og frestunar á gjalddögum vegna skatta og tryggingargjalda veitingahúsa. Ríkisstjórnin tilkynnti þetta að loknum fundi í Ráðherrabústaðnum. Nýjar reglur gilda til 2. febrúar næstkomandi.

„Okkar niðurstaða er sú að aðgerðir verði hertar. Þar sem þær verða hertar er líka þörf á efnahagsaðgerðum,“ hefur RÚV eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hún segir að þessar breytingar hafi verið óhjákvæmilegar í ljósi stöðunnar í heilbrigðiskerfinu.

Engar breytingar verða gerðar á skólum og frístundaheimilum. Spurð um þessa ákvörðun segir Katrín að frá upphafi faraldurs hefði verið ákveðið að halda skólunum opnum eins og hægt væri til að tryggja menntun barna. Þá verða reglur um sund og líkamsræktarstaði óbreyttar. Sviðslistir verða leyfðar með allt að 50 áhorfendum í hólfi en heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur úr gildi.

Frumvarp um frestun gjalddaga verður rætt í þinginu á mánudag. Auk þess verða kynntar aðrar aðgerðir til að aðstoða menningargeirann og veitingahús í næstu viku.

Megininntak reglna um samkomutakmarkanir með þeim breytingum sem verða á miðnætti

  • Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
  • Áfram 2 metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
  • Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
  • Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
  • Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
  • Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
  • Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
  • Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
  • Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.

Fréttin var uppfærð eftir að heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu.