Hlutur veiðigjaldanna í afkomu tíu af stærstu útgerðum landsins í afkomu síðasta árs var nokkur. Árið 2018 greiddu félögin tíu, sem úttektin nær til, samtals rúmlega 5,2 milljarða króna í veiðigjöld. Árið á undan var upphæðin þrír milljarðar og um hálfum milljarði betur. Var því um helmingshækkun að ræða milli ára.

Alls námu veiðigjöld á liðnu ári rúmlega 11,3 milljörðum króna. Ný heildarlöggjöf um veiðigjöld var samþykkt á Alþingi áður en þingið fór í jólafrí í fyrra. Lögin fela í sér að álagning gjaldsins er færð framar í tíma og tekur álagning gjaldsins því betur mið af stöðu og afkomu fyrirtækjanna hverju sinni. Álagningin á nýliðnu ári tók til að mynda mið af veiðiárinu 2015-16 sem var öllu betri en nú. Áætlað er að veiðigjöld á þessu ári muni alls nema um sjö milljörðum króna.

Næststærsti útgjaldaliður útgerðanna hefur að jafnaði verið vegna olíu. Fyrirtækin hafa því ekki fagnað hækkunum stjórnvalda á kolefnisgjaldi en það hækkaði um helming í ársbyrjun síðasta árs. Stefnt er að því að hækka það enn frekar á komandi árum. Hafa útgerðirnar bent á að samkeppnisaðilar á erlendri grund hafi hingað til ekki þurft að taka á sig slíkar hækkanir en slíkt er til þess fallið að skekkja samkeppnisstöðu félaga hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .