Heildarviðskipti með skuldabréf í Kauphöllinni (Nasdaq Omx Iceland) námu rúmum 198 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 9,9 milljarða veltu á dag.  Í janúarmánuði nam veltan 9,7 milljörðum á dag.  Mest voru viðskipti með lengri flokka ríkisbréfa, RIKB 25,  41,5 milljarðar  og þá með RIKB 19   34 milljarðar.  Alls námu viðskipti með ríkisbréf 130,6 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 56,6 milljörðum.

Í febrúarmánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 33,3% (34,4% á árinu), Íslandsbanki með 23,3% (22,3% á árinu) og Landsbankinn með 19,6% (17,5% á árinu).

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Verslað með hlutabréf fyrir 89 milljónir króna á dag

Heildarviðskipti með hlutabréf í febrúarmánuði námu rúmum 1.777 milljónum eða 89 milljónum á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í janúarmánuði rúmar 3.493 milljónir, eða 184 milljónir á dag.  Mest voru viðskipti með bréf bréf Össurar (OSSR) 262 milljónir og með bréf Marels (MARL) 191 milljónir.  Markaðsvirði skráðra félaga var 220 milljarðar í lok síðasta mánaðar og hækkaði um 10% á milli mánaða.  Markaðsvirði bréfa Össurar nam rúmum 76 milljörðum og er það félag stærst að markaðsvirði skráðra félaga.  Næst í stærð er Marel en markaðsvirði þess nemur rúmum 50 milljörðum og bréf Føroya Banki en markaðsvirði þess er rúmir 38 milljarðar.