Reitir töpuðu 9,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins eftir skatta. Um er að ræða umtalsverða aukningu frá sama tímabili í fyrra þegar félagið tapaði 1,8 milljarði á fyrstu sex mánuðum ársins. Stjórn og stjórnendur Reita ákváðu að endurmeta eignasafn félagsins eftir að fasteignafélagið Reginn var skráð í kauphöllina fyrr í sumar. Þetta er gert þar sem endurskoðunarstaðlar segja til um að mat eigna skuli vera í samræmi við sambærileg skráð félög.

Reginn er viðmið
Áður en fasteignafélagið Reginn var skráð á markað í júní var í raun ekkert viðmið á markaði sem Reitir gat notað í eignamati félagsins. Hingað til hafa endurskoðendur Reita haft ábendingu í uppgjörum Reita að virði eigna sé óljóst þar sem ekkert marktækt viðmið sé til staðar. Endurmat fjárfestingaeigna Reita skilaði nú rúmlega 10 milljarða lækkun á eignum félagsins. Um er að ræða um 12% niðurfærslu á eignum félagsins, 25% af byggingarréttum en 10% af fasteignum. Þetta er til viðbótar við þær niðurfærslur
fjármálastofnana þegar Landic Properties var tekið yfir eftir hrun en þá var skuldum félagsins að miklu leyti breytt í eigið fé af hálfu lánveitenda.

„Við lítum svo á að nú sé félagið rétt stillt af hvað varðar virði eigna. Það gerir okkur auðveldara með að klára það ferli að skrá félagið í kauphöll, endurfjármagna það og koma því í hendur nýrra eigenda. Á þessari vegferð erum við,“ segir Guðjón  Auðunsson, forstjóri Reita um niðurfærslu eigna félagsins sem birtist í árshlutauppgjörinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.