Óvissa er um framtíð uppbyggingar í Vesturbugt við gamla Slippinn og Mýrargötu í Vesturbæ. Framkvæmdir áttu að hefjast um mitt síðasta ár en fjármögnun verkefnisins hefur ekki gengið eftir og óvíst hvort eða hvenær henni lýkur.

Samkvæmt bréfi sem lagt var fram á fundi borgarráðs þann 14. október sl. er óvissa um fjármögnun verksins tilkomin vegna „verulega breyttra aðstæðna á fasteignaog fjármagnsmörkuðum“. Þessar breytingar séu „einkum vegna mikils framboðs nýrra óseldra íbúða í nærumhverfi Vesturbugtar, mikils magns nýs óráðstafaðs atvinnuhúsnæðis á svæðinu og takmarkaðrar viðbótar útlánagetu fjármálastofnana til slíkra verkefna“. Undir bréfið ritar Bjarki A. Brynjarsson, framkvæmdastjóri Vesturbugtar ehf., sem er eignarhaldsfélag í meirihlutaeigu Kaldalóns, fasteignafélags í eignastýringu hjá Kviku banka, en það var stofnað í kringum uppbygginguna.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að óhjákvæmilega hafi þurft að fresta upphafi framkvæmdanna. „Allavega þar til aðstæður á fasteigna- og fjármagnsmörkuðum breytast á ný þannig að framkvæmdafjármögnun verður möguleg. Við munum engu að síður halda áfram undirbúningi og róa öllum miðum að því að klára fjármögnun fyrir tilsettan tíma,“ segir Bjarki. Óskað var eftir auknum fresti á grundvelli ákvæðis um óviðráðanleg atvik í samningnum við Reykjavíkurborg og segir Bjarki að takist ekki að ljúka fjármögnuninni á næstu sex mánuðum muni reyna frekar á þetta ákvæði.

„Þessar breytingar á mörkuðum sem hafa átt sér stað falla að okkar mati undir skilgreiningu á óviðráðanlegu atviki og eins og kveður á um í samningum munum við þá ganga til viðræðna við borgina um breytingar á efnisatriðum þannig að unnt verði að ná markmiðum hans,“ segir Bjarki.

Tveir bankar hættu við

Fyrirhugað er að reisa 176 íbúðir í Vesturbugt auk þess sem tæplega 13 þúsund fermetrar eru áætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, verslanir, veitinga- og kaffihús, á jarðhæð bygginganna. Ráðgert er að verkefnið muni í heild kosta um 10 milljarða króna. Stærsti hluthafi Vesturbugtar ehf., Kaldalón hf., hafði lagt inn hlutafjárloforð fyrir 80% þess eiginfjár sem ætlað var að þyrfti á móti framkvæmdafjármögnun banka, en félagið er í eigu einkafjárfesta og greindi Viðskiptablaðið frá því í febrúar á síðasta ári að hlutafé félagsins næmi 1,8 milljörðum króna. Þá hafði Sundaborg ehf. lofað um 20% eiginfjárframlagsins, en félagið er til helminga í eigu VSÓ ráðgjafar ehf. og BAB Capital, sem aftur er í eigu Bjarka A. Brynjarssonar, fyrirverandi forstjóra Marorku.

Viðskiptabanki Vesturbugtar dró síðastliðið sumar til baka vilyrði fyrir fjármögnun verkefnisins á grundvelli óhagstæðra ytri skilyrða. Var þá gengið til samninga við Kviku baka og síðastliðið haust var tilkynnt að bankinn myndi afla framkvæmdafjármagns til verkefnisins. Í bréfi Brynjars til Reykjavíkurborgar segir að nýverið hafi svo Kvika banki upplýst Vesturbugt um að ekki hafi verið mögulegt að loka fjármögnuninni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .