Fasteignafélögin þrjú á aðalmarkaði Nasdaq Iceland hækkuðu öll í dag og var hækkun tveggja þeirra með því mesta sem sást. Úrvalsvísitalan heldur áfram að hækka og stóð hún í 3.076 við lokun markaða. Það er 1,87% hærra en við upphaf viðskipta dagsins.

Mesta hækkun dagsins var hjá Eik, aðalfundur félagsins stendur nú yfir og árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs verður birt á fimmtudag, eða um 4,53%. Reitir fylgdu í kjölfarið með 4,08%. Magn fyrrnefnda félagsins var 225 milljónir króna en 398 milljónir hjá því síðara. Reginn hækkaði um 2,70% í 213 milljóna viðskiptum.

Framan af degi var Icelandair það félag sem sveif hvað hæst en þegar mest lét nam hækkun félagsins um 7%. Við lokun nam hækkunin 3,82% í 577 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins stendur nú í 1,63 krónum á hlut. Einhver viðskipti áttu sér einnig stað með áskriftarréttindi í Icelandair en þau námu samanlagt rúmum 16 milljónum króna.

Mesta magn viðskipta var í Kviku, 937 milljónir króna, og hækkaði bankinn um 2,20%. Því næst kom Arion banki með 820 milljón króna viðskipti, gengi bankans stóð í stað, og Marel sem hækkaði um 2,38% í 751 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði Festi um 2,82% í rúmlega 400 milljón króna veltu. Önnur félög hækkuðu minna.

Þrjú félög lækkuðu í dag, Brim um 0,92% í 109 milljóna viðskiptum, Origo lækkaði um 0,56% í átta milljóna viðskiptum og þá dugðu 129 þúsund króna viðskipti í Sýn til að ýta bréfunum niður um 0,23%. Samanlögð velta á aðalmarkaði var rúmlega 5,5 milljarðar króna. Skuldabréfamegin var velta um milljarði lægri, mest í óverðtryggðum ríkisbréfum.