Framkvæmdir byrja í dag á tíu nýjum svítum á Hótel Grímsborgum. Um er að ræða 40 fermetra „junior“ svítur en fyrir eru þær átta. Ólafur Laufdal Jónsson, sem á hótelið ásamt eiginkonu sinni Kristínu Ketilsdóttur, gerir ráð fyrir að verklok verði í árslok. Þetta segir hann í viðtali við mbl.is .

Verönd er við svíturnar með aðgengi að heitum potti. Alls eru 29 pottar við hótelið, ýmist til sameiginlegra nota eða einkanota, en þeir hafa verið mikið aðdráttarafl að sögn Ólafs.

Sjá einnig: Fyrstu 5 stjörnu hótelin

Hótel Grímsborg var opnað sumarið 2009 og hlaut fimm stjörnu flokkun tíu árum síðar, fyrst íslenskra hótela. Ólafur segir að undanfarið ár hafi gengið betur og að það sé „allavega ekki í mínus á síðastliðnu ári í rekstrinum“.

„Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé eina hótelið sem hefur verið opið hvern einasta dag. Ég hef ekki lokað einn dag síðan þetta kom upp,“ segir Ólafur Laufdal Jónsson, eigandi Hótels Grímsborga. Hann segir að bókanir séu farnar að berast frá erlendum ferðamönnum. Þær séu ekki margar en stöðugar, eða um fjórar til fimm á dag.