Í bransa sem veltir milljörðum dala er eðlilegt að einhverjir sitji eftir með sárt ennið á meðan aðrir græða á tá og fingri. Hér koma tíu verstu viðskiptaákvarðanir sem teknar hafa verið í heimi tækninnar að mati Business Insider.

Hefði getað átt 1/3 í Apple

Nolan Bushnell, stofnandi Atari og einn af fyrstu yfirmönnum Steve Jobs, hafnaði tilboði um að fjárfesta 50 þúsund dali í Apple. Hefði Nolan sagt já ætti hann einn þriðja af Apple í dag en fyrirtækið er metið á 400 milljarða dali.

Gæti átt 40 milljarða dali í dag

Ronald Wayne, einn af þremur stofnendum Apple seldi 10% hlut sinn í fyrirtækinu fyrir 800 dali, tveimur vikum eftir að það fór á markað. Hann fékk síðar 1500 dali fyrir að afsala sér öllum eignarrétti af hlut í fyrirtæknu. Ef hann hefði haldið eftir hlut sínum væri hann 40 milljarða dala virði í dag.

Sögðu fimm sinnum nei

Á áttunda áratugnum vann Steve Wozniak fyrir Hewlett-Packard. Í frítíma sínum hannaði hann PC tölvuna sem síðar varð Apple 1 tölvan. Steve grátbað stjórnendur Hewlett-Packard fimm sinnum að framleiða tölvuna sína. Forstjórinn, sem hét John Young, hélt nú síður. Svo, Steve fór frá Hewlett-Packard og stofnaði fyrirtækið Apple með vini sínum, Steve Jobs.

Hlustaði á pabba og hætti við að vera með í Facebook

Joe Green, herbergisfélagi Mark Zuckerberg, hafnaði tilboði Mark um að stofna með honum Facebook. Þegar þeir voru í Harvard stofnuðu þeir vefsíðuna Facemash. Skólayfirvöld voru ekki hrifin af þessu uppátæki piltanna og þegar Mark vildi síðan fá Joe með sér í að stofna Facebook ráðlagði faðir Joe syni sínum frá því að taka þátt. Hefði Green hins vegar sagt já hefði hann fengið um 5% hlut í fyrirtækinu sem er um 3 milljarða dala virði í dag.

Sleit viðræðum við Facebook 2004

Facebook var stofnað í herbergi Mark Zuckerberg á heimavistinni í Harvard. Höfuðstöðvar fyrirtækisins hefðu hugsanlega verið áfram á Boston svæðinu ef sprotafyrirtækið Battery Ventures hefði ekki slitið viðræðum við Mark Zuckerberg árið 2004 um fjármögnun á fyrirtækinu. Scott Tobin hjá Battery Ventures kallar Facebook stærsta fiskinn sem slapp.

Forðaðist stofnendur Google

Þegar Bessemer Venture Partners birti lista yfir fyrirtæki, sem það hefði getað fjárfest í en gerði ekki, kom ýmislegt í ljós. Meðal annars hvernig David Cowan hafði sleppt því að fjárfesta í Google. Vinkona David úr háskóla, Susan Wojcicki, leigði Sergey Brin og Larry Page bílskúrinn sinn. Þeir notuðu hann undir fyrstu skrifstofu Google. Susan suðaði í David að hitta þessa menn í bílskúrnum og hugsanlega fjárfesta í verkefninu þeirra en hann forðaðist bílskúrinn og þessa tvo gaura eins og heitan eldinn.

Sagði nei við 100 milljónum dala

Brett O´Brien stofnaði Viddy (eins og Instagram nema fyrir myndskeið) síðasta vor og það sló í gegn. Á sama tíma hafði Instagram verið yfirtekið af Facebook á milljarð dali. Viddy var þá með um 30 milljónir notenda á mánuði. Twitter sýndi Viddy áhuga og bauð fram 100 milljónir dali en O´Brien neitaði. Þessu neitar þó O´Brien og segir Twitter ekki hafa boðið ákveðið í Viddy. Síðan hafa vinsældir Viddy hrapað og O´Brien verið sparkað sem forstjóra.

Blackberry vanmat iPhone

Fyrir sex árum kynnti Apple iPhone og það er ekki fyrr en núna sem Blackberry þykir hafa komið með trúverðugt svar við iPhone með Blackberry 10. En sumir segja að það sé of seint. Margir telja að árið 2008 hafi Blackberry átt möguleika í iPhone vegna þess að Blackberry notendur voru mjög trúir sínu merki og þeir biðu eftir snertiskjá frá Blackberry. En síminn sló aldrei í gegn og notendur flúðu yfir til Apple. Mike Lazaridis forstjóri, sem þótti bera ábyrgð á þessu öllu, hætti árið 2011.

Forstjóri Yahoo hafnaði 44,6 milljarða dala yfirtökutilboði Microsoft

Forstjóri Yahoo, Jerry Yang, hafnaði yfirtökutilboði Microsoft í Yahoo upp á 44,6 milljarða dala árið 2009. Margir hluthafar voru ósáttir við þessa ákvörðun. Í kjölfarið dalaði gengi Yahoo í nokkur ár. Það er ekki fyrr en núna að Yahoo er farið að rétta úr kútnum með nýjum stjórnanda, Marissa Mayer.