Tíu starfsmenn Samkaupa í Hyrnunni í Borgarnesi fengu uppsagnarbréf í vikunni.

Frá þessu er greint á vef Skessuhorns en Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, segir að þetta sé gert vegna þess að leigusamningur Samkaupa við húseigendur, N1, rennur út um næstu áramót.

„Það er fullur vilji hjá okkur í Samkaupum að reka Hyrnuna áfram en því miður hefur ekki náðst samkomulag við N1. Þá hefur heldur ekki náðst samkomulag hvernig yfirtaka þeirra á Hyrnunni verður háttað. Við hörmum mjög að þurfa að grípa til þessa ráðs og það er óþægilegt að starfsfólkið okkar þurfi að vera í þessari óvissu. Okkur var þetta nauðugur kostur,“ segir Ómar í samtali við Skessuhorn.

Sigurður Guðmundsson, rekstrarstjóri Hyrnunnar er meðal þeirra sem var sagt upp. Hann segir þá sem nú fengu uppsagnarbréf vera jafnframt með lengstan starfsaldur og þar af leiðandi lengstan uppsagnarfrest.

Þá kemur fram í fréttinni að Samkaup hefur rekið Hyrnuna frá árinu 2004 en forverar þeirra opnuðu Hyrnuna í júní 1991.