Tíu störf verða lögð niður við Landbúnaðarháskóla Íslands um næstu mánaðamót. Ástæðan er sú að rekstur skólans fór fram úr fjárhagsáætlun í fyrra og þurfti ríkissjóður að veita honum fjárhagslegan stuðning. Skólinn þarf að greiða til baka 10 milljónir króna á þessu ári og 35 milljónir á næsta ári. Ekki er búið að segja starfsfólki hverjir missa vinnuna.

Greint er frá málinu í Bændablaðinu sem kom út í dag og haft eftir Birni Þorsteinssyni, rektor skólans, að í þessum mánuði verði hrint í framkvæmd niðurskurðaráætlun sem taki gildi um næstu mánaðamót. Um neyðaráætlun að ræða. Með áætluninni sé talið að búið verði að koma fjárhagsáætlun skólans inn fyrir þann fjárhagsramma sem honum var ætlaður og felst í því að skólinn nái endum saman á næsta ári.

„Okkur hefur verið ljóst frá því snemma í vor að við yrðum að fara í þessar endurgreiðslur til ríkissjóðs og unnum eftir það samkvæmt neyðaráætlun. Afleiðing þessa var að ýmsir starfsmenn urðu uggandi um sinn hag og nokkrir hafa þegar fundið sér önnur störf sem gerði það að verkum að núverandi fjárhagsár gengur upp,“ segir Björn.