Fimm tekjuhæstu einstaklingarnir í auglýsingabransanum á síðasta ári starfa allir hjá ENNEMM eða Efni. Hallur Andrés Baldursson, stjórnarformaður ENNEMM, var þeirra tekjuhæstur, en miðað við greitt útsvar voru tekjur hans að jafnaði tæpar 2,5 milljónir króna á mánuði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar þetta árið.

William Oliver Luckett, stjórnarformaður Efnis, er næstur á listanum með 1,96 milljónir krónur á mánuði að jafnaði og Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri sama félags, er sú þriðja en tekjur hennar námu að meðaltali 1,92 milljónum á mánuði.

Sá fjórði á lista er Sveinn Líndal Jóhannsson, tengill hjá ENNEMM, með 1,59 milljónir króna á mánuði að jafnaði, og sá fimmti er Hjörvar Harðarson, hönnunarstjóri hjá sama félagi, að jafnaði með um 1,5 milljónir á mánuðir.

Tekjuhæsta auglýsingafólkið árið 2020:

  1. Hallur Andrés Baldursson, stjórnarformaður ENNEMM - 2.483
  2. William Oliver Luckett, stjórnarformaður Efnis - 1.964
  3. Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Efnis - 1.923
  4. Sveinn Líndal Jóhannsson, tengill hjá ENNEMM - 1.588
  5. Hjörvar Harðarson, hönnunarstjóri ENNEMM - 1.504
  6. Bragi Valdimar Skúlason, Brandenburg - 1.329
  7. Jón Árnason, hugmyndastjóri ENNEMM - 1.292
  8. Arnar Helgi Hlynsson, stofnandi Tjarnargötunnar - 1.291
  9. Karen Kjartansdóttir, fv. frkvstj. Þingfl. Samfylkingarinnar og nú almannatengill hjá Athygli - 1.280
  10. Leifur Björn Dagfinnsson, framkvæmdastjóri True North - 1.234

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í gær. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .