
Þórhallur Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, eru efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu flugfólkið á síðasta ári. Hann fékk að jafnaði greiddar 3,4 milljónir króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Aðeins einn annar starfsmaður Icelandair situr í efstu tíu sætin en það er Linda Gunnarsdóttir yfirflugstjóri með 2.869 þúsund krónur á mánuði.
Í tíu efstu sætunum eru þrír úr röðum flugfélagsins Air Atlanta. Ólafur Örn Jónsson, flugmaður Atlanta, situr í öðru sæti listans með 3.234 þúsund krónur á mánuði. Haraldur Helgi Óskarsson flugstjóri og Jóhann Jón Þórisson, flugmaður Atlanta, eru í áttunda og níunda sæti, hvor um sig með rúmar 3 milljónir á mánuði.
Þá eru fjórir fulltrúar Landhelgisgæslunnar á listanum. Jakob Ólafsson, flugstjóri Landhelgisgæslunnar, er í þriðja sæti á listanum með 3,2 milljónir á mánuði. Jakob var í efsta sæti á listanum í síðustu útgáfu Tekjublaðsins fyrir árið 2018. Auk Jakobs eru Garðar Árnason, Björn Brekkan Björnsson og Sigurður Heiðar S Wiium í efstu sjö sætunum, allir með yfir þrjár milljónir króna á mánuði.
Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.
Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér.