Efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir ráðamenn þjóðarinnar, það eru forseti, ráðherrar og alþingismenn, er Guðni Thorlacius Jóhannesson, forseti lýðveldisins, en miðað við greitt útsvar þénaði hann að jafnaði um 2,8 milljónir króna á mánuði á síðasta ári.

Á eftir honum er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra með um 2,1 milljón króna á mánuði að jafnaði. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er þriðji á lista með tæpa 2,1 milljón á mánuði.

Fjórði á lista er Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra að jafnaði með um 2 milljónir króna á mánuði og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er sá fimmti með um 1,9 milljónir.

Að forseta Alþingis undanskildum var sjálfstæðismaðurinn Haraldur Benediktsson tekjuhæstur á síðasta ári með tæpar 1,9 milljónir króna á mánuði að jafnaði og vermir hann sjötta sæti listans.

Tekjuhæstur þingmanna í stjórnarandstöðu er Logi Már Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, einnig með tæpar 1,9 milljónir króna að jafnaði og er hann áttundi á lista.

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, þénaði lægst allra ráðamanna eða um 1,1 milljón króna að jafnaði.

Tekjuhæstu ráðamenn landsins árið 2020:

  1. Guðni Thorlacius Jóhannesson, forseti Íslands - 2.801
  2. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra - 2.124
  3. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra - 2.073
  4. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra - 2.044
  5. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis - 1.880
  6. Haraldur Benediktsson, alþingismaður - 1.866
  7. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra -1.862
  8. Logi Már Einarsson, alþingismaður - 1.855
  9. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarm. ráðh. - 1.840
  10. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðam.-, iðn.- og nýsk.ráðh. - 1.829

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út á dögunum. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .