Efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir ýmsa einstaklinga í atvinnulífinu þetta árið er fjárfestirinn Sigfús B. Ingimundarson, en miðað við greitt útsvar þénaði hann að jafnaði um 8,3 milljónir króna á mánuði á síðasta ári.

Á eftir honum er viðskiptafræðingurinn Karólína D Þorsteinsdóttir með um 6,7 milljónir króna á mánuði að jafnaði, en hún var efst á lista í síðasta blaði. Guðjón Rúnarsson er þriðji á lista með um 6,3 milljónir á mánuði.

Fjórði á lista er Gunnlaugur S. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis, að jafnaði með um 5,9 milljónir króna á mánuði og Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og Samherja, er sá fimmti með um 5,4 milljónir.

Hvorki Sigfús né Björgólfur voru á meðal tíu efstu á lista yfir ýmsa í atvinnulífinu í síðasta Tekjublaði. Þá var Sigfús sá 13. á lista með um 3,5 milljónir á mánuði að jafnaði en Björgólfur var þá á listanum yfir forstjóra fyrirtækja í 28. sæti með 4,7 milljónir á mánuði.

Tekjuhæsta athafnafólkið árið 2020:

  1. Sigfús B. Ingimundarson, fjárfestir - 8.345
  2. Karólína D Þorsteinsdóttir, viðskiptafræðingur - 6.691
  3. Guðjón Rúnarsson, bifrstj.- 6.269
  4. Gunnlaugur S. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis - 5.893
  5. Björgólfur Jóhannsson, fyrrv. forstjóri Icelandair og Samherja - 5.405
  6. Óskar Axelsson, rafeindav. - 5.167
  7. Ragnar Guðmundsson, fv. forstjóri Norðuráls - 4.929
  8. Þórður Magnússon, stj.form. fjárfestingar. Eyris - 4.553
  9. Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Air Atlanta - 4.362
  10. Stefán Eyjólfsson, stjórn Air Atlanta - 4.105

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í gær. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .