*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 9. ágúst 2021 10:40

Tíu þúsund flugu með Play í júlí

Sætanýting Play var 41,7% á fyrsta mánuði flugfélagsins í fullum rekstri.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Flugfélagið Play hefur birt fyrstu flutningatölur sínar eftir að það hóf farþegaflug í lok júní síðastliðins. Farþegar Play voru alls 9.899 talsins í júlí og sætanýting nam 41,7%, sem er í takt við væntingar félagsins fyrir þennan fyrsta mánuð í fullum rekstri, að því er segir í tilkynningu félagsins. Play segir að eftirspurn eftir sumarleyfisstöðum hafi verið vel umfram væntingar.

„Árangur PLAY í júlí, fyrsta mánuðinum í fullum rekstri félagsins, var mjög góður miðað við stöðuna á markaði og það að félagið er rétt að hefja starfsemi sína. Stærsta markmið PLAY var að hefja flugrekstur sinn með faglegum hætti, veita örugga og góða þjónustu og tryggja ánægju viðskiptavina sinna. Til marks um góðan árangur var PLAY stundvísasta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli í júlí með 96,2% flugferða á réttum tíma,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að faraldurinn hafi óneitanlega haft áhrif á starfsemina í júlí og áætlanir gera ráð fyrir að eftirspurn sveiflist til með þróun faraldursins „enda er það ástæða þess að félagið er að fara hægt og örugglega af stað í starfsemi sinni“.  

Þróunin í júlí hafi verið jákvæð þar til ný bylgja kórónuveirunnar skall á hér á landi um miðjan mánuðinn. Íslenskir viðskiptavinir nýttu sér þá sveigjanlega COVID-19 skilmála PLAY og breyttu ferðadagsetningu sinni í mörgum tilfellum og hafði það neikvæð áhrif á sætanýtingu í mánuðinum. Ekki sé um að ræða tekjutap heldur tilfærslu á tekjum og sætanýtingu.

Mun minna hafi verið um breytingar eða afbókanir meðal erlendra ferðamanna á leið til Íslands „sem er markvert vegna þess að meirihluti þeirra farþega sem kaupa miða með PLAY eru erlendir ferðamenn eða farþegar sem hefja ferð sína utan Íslands“. Flugfélagið segist þegar sjá merki um aukinn ferðavilja og bókanir frá innlendum viðskiptavinum og stjórnendur félagsins eru bjartsýnir á komandi mánuði.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Markmið okkar er að byggja PLAY upp í öruggum og yfirveguðum skrefum og er góður árangur þessa fyrsta mánaðar í fullum rekstri traust og gott skref í þá átt. Við erum stolt af árangri okkar við erfiðar aðstæður og ég vil þakka starfsfólki okkar fyrir elju og dugnað og farþegum okkar fyrir að ferðast með PLAY.“

Þá fékk PLAY þrjár A321 neo flugvélar í sumar sem eru allar komnar í notkun og byrjaðar að fljúga til þeirra sjö áfangastaða sem félagið hefur hafið flug til. Flugvélarnar koma inn í framleiðslu félagsins í takt við eftirspurn á markaði og eftir því sem flugáætlun félagsins þéttist.

„Hér nýtur félagið sveigjanlegra leigukjara sem gefur því kost á að stýra framboði sínu og um leið kostnaði félagsins með hagkvæmum hætti. Félagið er þannig vel í stakk búið til að takast á við þau áhrif sem heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur í för með sér á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningu félagsins.

Stikkorð: Play sætanýting flutningatölur