*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 30. apríl 2015 13:17

Tíu þúsund hófu verkfall í hádeginu

Tólf tíma verkfall tíu þúsund félagsmanna Starfsgreinasambandsins hófst kl. 12.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Um tíu þúsund félagar í ýmsum aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins lögðu niður störf nú í hádeginu og mun verkfallið standa til miðnættis.

Fundur milli Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins fór fram hjá Ríkissáttasemjara nú í morgun, en að því er Vísir greinir frá telja báðir aðilar að fundurinn hafi verið jákvæður.

„Við erum náttúrlega bara að ýta á okkar kröfur og þetta fyrsta verkfall núna frá hádegi til miðnættis er alvöru verkfall og gert til að knýja á um okkar kröfur,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, í samtali við Vísi.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir að fundurinn hafi verið jákvæður en ekki hilli undir neina lausn ennþá.

„Það hefur verið mjög langt á milli aðila og þar af leiðandi að okkar mati óhjákvæmilegt að til verkfalla kæmi. Það hefur einfaldlega ekki myndast sú staða hér á vinnumarkaði ennþá að það hilli undir neina lausn. Við höfum ítrekað sagt í viðræðum við alla aðila undanfarnar vikur að með þessum hætti séu viðræður einfaldlega í strandi,“ segir Þorsteinn.