Hönnunarfyrirtækið Farmers Market vann á síðasta ári úr tíu tonnum af íslenskri ull sem urðu að um það bil tuttugu þúsund flíkum. Fyrirtækið selur fatnað og fylgihluti hér á landi en einnig í tíu öðrum löndum.

Nú síðast var gerður samningur um sölu á vörunum í  stærstu stórverslunum Tokyo.

„Við erum að búa til verðmæti úr hugmyndum," segir Bergþóra Guðnadóttir hönnuður en hún rekur fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum Jóel Pálssyni.

Bergþóra áætlar að um þriðjungur af heildarframleiðslunni sé seldur á erlendum markaði. „Salan er smám saman að aukast," segir hún.

Fyrirtækið var stofnað árið 2005 en áður en Bergþóra hellti sér alfarið út í eigin rekstur starfaði hún í nokkur ár sem aðalhönnuður hjá 66°Norður. Hún er menntaður textílhönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Nánar er rætt er við þau Bergþóru og Jóel í Viðskiptablaðinu.