Í síðasta mánuði framkvæmdi Gallup könnun fyrir hönd Seðlabanka Íslands á afstöðu og þekkingu almennings hér á landi á sýndareignum. Með sýndareignum er átt við sýndarfé eða rafmyntir. Var markmið könnunarinnar að kanna hvort einstaklingar þekki slíkt og hvað einkenni þá sem fjárfesta í slíku. 8,7% svarenda höfðu fjárfest í sýndarfé, en greint er frá niðurstöðum könnunarinnar í ritinu Fjármálastöðugleiki , sem birt var í morgun.

Um 74% þeirra sem höfðu fjárfest í sýndarfé fóru með viðskipti sín í gegnum erlenda þjónustuveitendur, tæplega 9% í gegnum bæði íslenska og erlenda og 17% í gegnum innlenda þjónustuveitendur.  Bendir Seðlabankinn á að í hollenskri könnun á síðasta ári hafi um 8% sagst hafa fjárfest í sýndarfé, 3% í sambærilegri könnun í Bretlandi og 1,6% í Austurríki. Samkvæmt niðurstöðunum séu einstaklingar hér á landi því ekki eftirbátar annarra þjóða nema síður sé.

Af þeim 8,7% sem sögðust hafa fjárfest í sýndarfé hafi rúmlega 75% átt sýndarfé þegar könnunin var gerð. Langflestir kváðust eiga í Bitcoin, eða 88%. Þó hafi komið á óvart hversu margir höfðu fjárfest í öðrum tegundum sýndarfjár. Um 61% hafi átt í Ethereum og 57% í öðrum tegundum rafmynta.

„Um 13,4% svarenda töldu líklegt að þeir muni kaupa Bitcoin eða aðra tegund sýndarfjár í framtíðinni. Svipað hlutfall taldi líkur á að hægt væri að hagnast á slíkum viðskiptum. Nærri helmingur svarenda taldi jafnlíklegt að hagnast og tapa á viðskiptunum. Af þeim sem höfðu keypt í sýndarfé svaraði 71% í aldurshópi 18-34 ára að það væri líkur á (líklegra/jafn líklegt) að hagnast á viðskiptunum,“ segir m.a. í riti Seðlabankans.

Ungir karlmenn mest áberandi

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er algengast að karlmenn á aldrinum 18-34 ára, sem skilgreini sig sem áhættusækna með áhuga á tækninýjungum, fjárfesti í sýndarfé en erlendar kannanir hafi sýnt sama mynstur. Þá sagðist meirihluti í sama hópi hafa þekkingu á verðbréfum en aðeins 17,5% af þeim kveðst bera traust til fjármálakerfisins.

Að öllu jöfnu eyði fjárfestar ekki miklum fjármunum í kaup á sýndarfé. Könnunin sýni þó að 50% einstaklinga undir 35 ára aldri sem fjárfest hafi í sýndarfé hafi fjárfest fyrir meira en 10% af ráðstöfunartekjum. Telur Seðlabankinn það vera áhyggjuefni og bendi til mikillar áhættusækni.

Vekur það einnig athygli Seðlabankans að einn af hverjum fjórum sem fjárfest hafði í sýndarfé hafði notað það til þess að eiga viðskipti með vörur. Um 32% hafi ekki notað sýndarfé í viðskiptum en bjuggust við að gera það í framtíðinni. Færri eða um 11% höfðu svo notað sýndarfé til að millifæra á annan einstakling.

Hagnaðarvon helsta kveikjan

Hagnaðarvon er sögð kveikja þess að flestir ákveði að fjárfesta í sýndarfé. Um 70% svarenda sem höfðu fjárfest í sýndarfé kváðust hafa fjárfest í þeim vegna hagnaðarvonar. Um 50% nefndu áhuga á tækninni að baki rafmyntum. Þá nefndi einn af hverjum þremur litla ávöxtun á sparnaðarreikningum og verðbréfum, auk þess sem einn af hverjum fimm nefndi lítið traust á íslensku krónunni.

Undir lokin dregur Seðlabankinn saman niðurstöðurnar. Þær bendi til þess að vísbendingar séu uppi um að yngra fólk, sérstaklega karlmenn, fjárfesti í sýndarfé og hafi almennt trú á framtíð þess. Óvíst sé hversu meðvitaðir þeir séu um áhætturnar sem fylgja fjárfestingunni. Aukin útbreiðsla og notkun sýndarfjár feli í sér ýmsar áskoranir fyrir seðlabanka og aðra eftirlitsaðila.