Stjórn Hinsegin Daga og Tix Miðasala sem á og rekur vefinn tix.is hafa undirritað samstarfssamning. Með tilkomu þessa samstarfssamnings mun Tix Miðasala sjá um miðasölu fyrir hátíðina Hinsegin Dagar í Reykjavík sem hingað til hefur verið undir stjórn Hinsegin Daga.

„Okkar sérhæfing er miðasala og með tilkomu þessa samstarfs sjáum við fyrir okkur að einfalda utanumhald viðburða fyrir stjórn Hinsegin Daga. Hátíðin er gríðarlega mikilvæg í íslensku þjóðfélagi og nú sem aldrei fyrr í ljósi versnandi orðræðu til ýmissa hópa er tilheyra undir regnhlíf hinsegin samfélagsins á landinu,“ segir Sindri Már Hannesson, rekstrarstjóri Tix Miðasölu.

Hinsegin Dagar í Reykjavík eru sjálfstæð félagasamtök sem standa fyrir stærstu menningar- og mannréttindahátíð hinsegin fólks á Íslandi í ágústmánuði á ári hverju. Hápunktur Hinsegin Daga hefur verið gleðigangan sem er fjölsótt af landsmönnum öllum og er gengin um miðborg Reykjavíkur.

Það er gagnkvæm von og markmið beggja aðila að þetta verði til þess fallið að efla miðasöluhluta hátíðarinnar og mun Tix leitast við að koma hátíðinni á framfæri á sinni vefsíðu.

„Við erum Tix þakklát fyrir stuðninginn og hlökkum til samstarfs við hátíðina nú í ár og síðari hátíða. Þá hvetjum við Íslendinga til að styðja við hinsegin samfélagið bæði á Hinsegin Dögum sem og aðra daga og hlökkum til að taka á móti sem flestum á hátíðinni 8. - 13. ágúst í Reykjavík” segir Inga Auðbjörg K. Straumland, framkvæmdastjóri Hinsegin Daga.