Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda segist ekki sjá ástæðu til að tjá sig í fjölmiðlum um viðskipti félagsins við bandaríska félagið High Liner. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu HB Granda. High Liner ákvað nýlega að hætta viðskiptum við HB Granda vegna tengsla þeirra við Hval hf.

Vilhjálmur segir í tilkynningunni að hlutabréf félagsins gangi kaupum og sölum á markaði og útilokað sé fyrir félagið að hlutast til um hegðun einstakra hluthafa. „Við erum sammála stjórnvöldum í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda en höfum ekkert með það að gera hvaða starfsemi einstakir hluthafar kjósa að stunda eða stunda ekki,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að birgðir afurða félagsins séu í lágmarki og hann hafi ekki áhyggjur af sölu þeirra.