Appelsínuguli maðurinn í Hvíta húsinu er ekki bara orðhákur, heldur er hann hörundsár líka, eins og títt um fólk þeirrar gerðar. Af þeirri ástæðu hafa lögfræðingar á hans snærum um nokkurt skeið haldið uppi kröfum um að Twitter geri opinskátt um nöfn ýmissa gagnrýnenda hans, sem hafa talað tæpitungulaust í skjóli nafnleyndar á Twitter. Varla er að efa að flestir frelsisunnandi lesendur síðunnar voni að forsetinn og skósveinar hans hafi ekki erindi sem erfiði í því. Það er afar mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi – eigi það að geta kallast lýðræðisþjóð- félag –  að borgararnir geti veitt valdhöfum aðhald, gagnrýnt þá og jafnvel úthúðað.

Það á auðvitað sérstaklega við þegar ástæða er til þess að óttast að yfirvöld vilji þagga niður í þeim eða refsa þeim fyrir tiltækið. Og þarf raunar ekki að horfa til lýðræðisríkja sérstaklega um það, á liðnum árum eru ótal dæmi um það hvernig undirokað fólk í einræðisríkjum hefur einmitt náð að láta rödd sína heyrast í skjóli nafnleysis, hvort sem til þess hafa verið notuð nýjasta nettækni eða veggspjöld. Ef litið er lengra aftur voru margháttuð nafnlaus skrif einmitt kveikjan að frelsisbaráttu víða um heim, jafnt í NorðurAmeríku á ofanverðri 18. öld, nýlendum snemma á hinni 20. eða í Austur-Evrópu undir oki kommúnismans. Hver vill standa gegn því nema óvinir frelsisins?

***

Á þetta er minnst vegna frétta af skýrslu forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningunum til Alþingis árin 2016 og 2017. Skýrslan var unnin að beiðni Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar og góðkunns vinar sannleika, réttlætis og frelsis.

Tilefnið voru nafnlausar síður á Facebook, en þær sem þá þóttu mest áberandi voru Kosningar 2016 og Kosningar 2017 sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna (en virtist raunar helga sig illmælgi um Eyþór Arnalds fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor) og Kosningavaktin sem rak óhemjurætinn áróður gegn flokkum á hægri vængnum.

Í skýrslu forsætisráðherra sagði að ekkert benti til þess að umræddar herferðir hafi verið ólöglegar miðað við núgildandi lög og  því sé vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast nánar fyrir um hverjir stóðu á bak við þær. Þær rannsóknarheimildir, sem helst kæmu til greina, væru í höndum lögreglu, en þá þyrfti að vera uppi grunur eða liggja fyrir kæra um refsivert brot. Svo hefði ekki verið.

***

Gott og vel. Á allt þetta má fallast og ætti raunar að vera harla augljóst. Þá vaknar hins vegar spurningin hvers vegna Þorgerður Katrín spurði svo ákveðið, en afstaða hennar virtist harla ljós, að síður af þessu tagi væru ólíðandi og þyrfti að uppræta.

Af stjórnarskrárgreininni, sem vitnað er til hér í upphafi, er ljóst að til þess eru engin efni, nema ef vera skyldi fyrirvarinn um að menn þurfi að ábyrgjast orð sín fyrir dómi. Til þess þarf þó varla sértæka löggjöf eða ritskoðunarákvæði, því lögreglu eða einkaaðilum stendur sú leið til boða að fá úrskurð um að Facebook gefi upp nöfnin þar að baki eða aðrar þær upplýsingar, sem leitt gætu menn á sporið um það. Það kann að vera örðug leið, en hún er fær.

***

Vandinn er sá að hér ræðir um stjórnmál og því miður líta stjórnmálaflokkarnir (eða sumir þeirra), svo á að þeir hafi sérstaka lögvarða hagsmuni í opinberri umræðu um stjórnmál. Það má rekja til laga sem sett voru um fjármál stjórnmálaflokka á sínum tíma, en þau voru þá reglubundin með nokkuð afgerandi hætti og langt umfram það sem önnur frjáls félagasamtök þurfa að þola eða nokkur tæki mál um annars konar starfsemi. Þá voru flokkunum settar strangar reglur um fjársöfnun og fjárreiður, þeim  gert að afhenda ríkisendurskoðanda bókhaldið með reglulegum hætti, hámark sett á fjárframlög til þeirra og gert skylt að upplýsa um nöfn styrkjenda þeirra umfram tiltölulega lága upphæð.

Fyrir þessu lágu ýmis málefnaleg rök, þó vissulega megi vel deila um þau mörg. Eftir sem áður kostar rekstur stjórnmálaflokka töluverða fjármuni, einkum í kosningabaráttu. Lýðræðið kostar og stjórnmálaflokkar eru mjög mikilvægur þáttur í því flókna gangverki. Til þess að koma til móts við skerta getu til fjáröflunar var því í lögunum kveðið á um ríflega fjárstyrki hins opinbera til framboða, bæði til Alþingis og sveitarstjórna. Þeir styrkir eru í samræmi við atkvæðastyrk, en þó aðeins til þeirra framboða sem hlotið hafa 5% gildra atkvæða, óháð því hvort þau fengu mann kjörinn eða ekki.

Vandinn er hins vegar sá að þetta fyrirkomulag festir í sessi þá sem fyrir eru en gerir nýjum framboðum erfitt fyrir. Og til þess að það virki eins og til er ætlast er nauðsynlegt að hafa nokkuð stíft eftirlit um hvernig flokkarnir framfylgja því. Af sama leiðir að þeir hafa áhyggjur af því að málflutningur fólks eða samtaka utan stjórnmálanna geti reynst vatn á myllu andstæðinganna. Hægri flokkar hafa horn í síðu pólitískra auglýsinga verkalýðshreyfingar, vinstri flokkar af auglýsingum Samtaka skattgreiðenda.

***

Það er úr þessum jarðvegi sem fyrirspurn Þorgerðar Katrínar er sprottin. Og hún er baneitruð. Vissulega kann að vera ástæða til þess að hafa tiltekna umgjörð um fjármál stjórnmálaflokka, en hún má ekki trompa tjáningarfrelsið. Hún má ekki verða til þess að stjórnmálaflokkarnir einir megi tjá sig um stjórnmál eða að stjórnvöld hafi eftirlit með því hverjir tjái sig um nokkuð það sem gæti  haft áhrif á þjóðmálaumræðu, hvort sem það eru andstæðingar hundahalds í þéttbýli. flugvallarvinir eða áhugafólk um nekt í þinghúsinu. „Stjórnmálamaður“ er ekki lögvarið starfsheiti.

Hafi menn áhyggjur af fjármálum stjórnmálaflokka, þá þarf að taka á þeim, ekki tjáningarfrelsinu.

***

Þessu lítillega skylt. Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, kom fram að borgin greiddi 4.183.920 kr. fyrir framleiðslu myndbanda um Borgarlínu og Miklubraut í stokk í aðdraganda kosninga, en svarið barst ekki fyrr en eftir kosningar. Við blasir að kynning þeirra mála hentaði sumum flokkum betur en öðrum í kosningabaráttunni. Það var þó ekki svo að þeir greiddu fyrir þá kynningu, heldur fellur kostnaðurinn á útsvarsgreiðendur alla

Þar liggur enn einn óleystur vandinn varðandi fjármál stjórnmálaflokka, en þetta er auðvitað langt í frá fyrsta dæmið um að ríkjandi stjórnvöld láti gera kynningarefni um sín frábæru mál og stórfenglega árangur. Erfitt er hins vegar að sjá af lögunum að Ríkisendurskoðun geti skakkað þann leik, nema því aðeins að henni þyki áróð- urinn svo augljós, að viðkomandi flokkur eða flokkar þurfi að gefa kostnaðinn og birtinguna upp sem styrk við sig og þá kárnar nú gamanið, svona í ljósi þess að þeir mega ekki þiggja nema 400.000 krónur frá hverjum styrkjanda á ári.

Í þeim efnum er auðvitað ekkert borðleggjandi, en kannski það væri ráð að skoða það betur. Undirtektirnar við fyrirspurn Mörtu benda ekki til þess að stjórnmálamenn hafi almennt áhuga á að taka það upp. Og fjölmiðlar ekkert mjög upprifnir heldur.