Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur verið tilnefnt til European Excellence Awards fyrir Höldum Fókus verkefnið sem þeir unnu með PR-Operatørene og fyrir norska ríkið, undir formerkjum Trygg Traffik, ásamt tryggingarfélaginu Gjensidige i Noregi.

Um er að ræða endurgerð á auglýsingunni Höldum Fókus, sem unnin var fyrir Símann og Samgöngustofu árið 2013.

Verkefnið er tilnefnt í flokknum Samfélagsleg Ábyrgð og keppir þar á móti risunum Allianz, Microsoft, Trygg-Hansa og Uniliver.

„Þetta er augljóslega ótrúlegur heiður og við erum öll hreinlega í skýjunum með þennan frábæra árangur” sagði Arnar Helgi,  leikstjóri verkefnisins og annar eigenda Tjarnargötu.

Samkvæmt þeim Einari og Arnari voru viðtökur á verkefninu úti vonum framar. Auglýsingin hefur fengið yfir 30 milljón birtingar og verið lofsungin af mörgum helstu fjölmiðlum landsins.

„Við tókum Höldum Fókus verkefnið sem við gerðum hér á Íslandi við góðar undirtektir og herjuðum í víking til Noregs.  Með þann mælanlega árangur, bein áhrif á ímynd þeirra fyrirtækja sem að verkinu komu og hlutfall deilinga hér heima - voru Norðmenn ekki lengi að keyra verkefnið í gang” segir Einar Ben, framkvæmarstjóri Tjarnargötu.