Tjón Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttinga á verðtryggðum húsnæðislánum og skattfrjáls séreignarsparnaðar íbúðakaupa gæti numið á bilinu 7,5 – 24 milljörðum íslenskra króna vegna snemmbúinna uppgreiðslna að fjárhæð 75-85 milljarðar króna yfir 4 ára tímabil. Þetta kemur fram í umsögn sem Íbúðalánasjóður sendi fjárlaganefnd Alþingis en Eyjan greindi fyrst frá minnisblaðinu..

Fjárlaganefnd Alþingis fór þess á leit við Íbúðalánasjóð að hann áætlaði möguleg fjárhagsleg áhrif vegna frumvarps um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðisskulda heimila og vegna frumvarps um heimild til ráðstöfunar séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána.

Varðandi niðurfellingu skulda metur Íbúðalánasjóður það sem svo að mesta áhættan sé vegna uppgreiðslu lána. Tjónið vegna þessa gæti verið á bilinu 4-13 milljarðar króna. Niðurgreiðslum mun hins vegar verða fyrst ráðstafað inn á vanskilahluta lána og mun þess vegna hafa einhver áhrif á gæði útlánasafnsins

Íbúðalánasjóður telur að tjón vegna séreignarsparnaðarins og umframgreiðslna tengdum honum geti verið á bilinu 3,5 til 11 milljarðar króna.