Tjón stærstu erlendu bankanna vegna lausafjárkreppunnar sem verið hefur á mörkuðum er nú komið í 18 milljarða dala eða 1.100 milljarða króna. Financial Times segir frá þessu eftir tilkynningar Merrill Lynch og Washington Mutual um mikinn kostnað vegna umróts á fjármálamörkuðum.
Áður höfðu stórir alþjóðlegir bankar á borð við Citigroup, UBS, Morgan Stanley, Goldman Sachs, Lehman Brothers, Bear Stearns og Deutsche Bank tilkynnt um mikla niðurfærslu eigna.


Sést í ljósið við enda lausafjárkreppugangnanna?
Merrill Lynch, sem sendi frá sér afkomuviðvörun á föstudag um 5,5 milljarða dala verri afkomu á þriðja ársfjórðungi vegna erfiðleika á mörkuðum, hækkaði um 2,5% í kjölfar tilkynningarinnar. Ástæðan er annars vegar talin vera sú að fjárfestum sé létt yfir því að búið sé að eyða óvissu um stærð áfallsins. Hins vegar telji fjárfestar sig nú sjá ljósið við enda lausafjárkreppugangnanna.