Athuganir, tölfræðigreining og vettvangsathugun Fjármálaeftirlitsins á verklagi tryggingafélaganna við mat á tjónum, gefa til kynna að tjónaskuld hafi á fyrri árum heldur verið ofmetin, en að dregið hafi úr því ofmati síðustu ár, m.a. vegna bætts verklags við mat á tjónum og aukins aðhalds. Fjármálaeftirlitið telur að bætt verklag við mat á tjónum sé einn af þeim þáttum sem veldur auknum hagnaði vátryggingafélaganna á síðustu árum, en hann hefur aukist allt frá árinu 2001.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um iðgjaldagrundvöll og tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu mun Fjármálaeftirlitið ekki fara fram á lækkun iðgjalda samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga um vátryggingastarfsemi á grundvelli framangreindrar athugunar. "Hjá þeim félögum og í þeim greinum sem ofmat mældist var lagt mat á hvaða áhrif lækkun tjónaskuldar hefði á hlutfall tjóna (að viðbættum rekstrarkostnaði og að frádregnum fjárfestingartekjum) af iðgjöldum, svokallað samsett tjónshlutfall greinarinnar til framtíðar, miðað við iðgjöldin eins og þau voru árið 2002. Þannig voru gerðar spár um afkomu til framtíðar sem benda ekki til að hagnaður sem gæti myndast vegna ofmats á tjónaskuld gefi til kynna að iðgjöld séu ósanngjörn í skilningi laganna," segir í skýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Þar kemur ennfremur fram að Fjármálaeftirlitið hefur vitneskju um að nú sé ríkjandi veruleg samkeppni í lögboðnum ökutækjatryggingum sem kemur fram í verulegum frávikum frá iðgjaldaskrá. Fjármálaeftirlitið beinir því til félaganna að þessar iðgjaldalækkanir verði gerðar almennar svo að allir viðskiptavinir njóti góðs af hagstæðri stöðu greinarinnar.

Fjármálaeftirlitið minnir einnig á leiðbeinandi tilmæli þess nr. 5/2002 um bónusreglur vátryggjenda í lögboðnum ökutækjatryggingum og telur brýnt að þeim sé fylgt svo að iðgjaldagrundvöllur verði í samræmi við áhættu hvers ökutækis. Eftirlitið gerir kröfu til þess að vátryggingafélög hlíti eigin bónusreglum og nefndum leiðbeinandi tilmælum. Ef vátryggingafélag hlítir þeim ekki þarf það að taka upp nýtt fyrirkomulag.

Fjármálaeftirlitið telur að iðgjaldalækkanir sem orðið hafa undanfarið séu í samræmi við niðurstöður eftirlitsins úr tölfræðigreiningu og vettvangsathugun sem fyrr er lýst. Í ljósi stöðu tjónaskuldar og núverandi fjárhagsstöðu félaganna telur eftirlitið að enn sé svigrúm til lækkunar iðgjalda, enda haldist sú góða afkoma í greininni sem þróast hefur á síðustu þremur árum. Einnig gæti hagstæð þróun tjónaskuldar umfram það sem útreikningar Fjármálaeftirlitsins gefa til kynna orðið til þess að hagnaður aukist enn frekar.

Fjármálaeftirlitið hefur samhliða heildarathugun sinni á lögboðnum ökutækjatryggingum skoðað iðgjaldagrundvöll einstakra áhættuflokka ökutækja og mun halda því áfram eftir því sem tilefni reynist. Eftirlitið telur brýnt að sanngirni sé gætt í öllum flokkum og að flokkar með fáum ökutækjum gjaldi ekki fyrir óvissu í greininni umfram aðra vátryggingartaka.

Í framhaldi af athugun þessari telur Fjármálaeftirlitið eðlilegt að styrkja eftirlit með tjónaskuld með reglum. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi getur Fjármálaeftirlitið sett almennar reglur um mat á vátryggingaskuldinni og hvaða gögn skuli fylgja í því sambandi auk ársreiknings. Vegna hlutverks Fjármálaeftirlitsins og mikilvægis þess að tjónaskuldin sé hvorki van- né ofmetin er fyrirhugað að setja slíkar reglur síðar á þessu ári. Verður þar tekið mið af alþjóðlegum stöðlum og reglum nágrannalanda.