„Hættulegt er að gera að einu hagsmuni ferðaþjónustu, annars vegar, og efnahagslífsins alls, hins vegar,“ segir Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann svarar Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur ferðamálaráðherra.

Gylfi segir öllum ljóst að ferðaþjónustan – sér í lagi þeir sem þjóna fyrst og fremst erlendum ferðamönnum – sé illa stödd. Hinsvegar þurfi að horfa á hagsmuni þjóðarinnar heildstætt þegar ákvarðanir séu teknar um sóttvarnir á landamærum.

„Ekki má horfa fram hjá þeim mikla efnahagslega skaða sem verður ef farsóttin herjar á samfélagið í vetur.“ [...] „Ef aukið flæði ferðamanna hefur í för með sér að farsótt geisi innan lands verður efnahagslegt tjón þjóðarbúsins margfalt meira en sá ávinningur sem fjölgun ferðamanna hefði í för með sér.“

Ungt fólk verði illa úti raskist skólastarf
Fyrir utan stórfelldan efnahagsskaða verði að hafa í huga áhrif á aðra þætti samfélagsins, svo sem skólahald. „Ef ekki er unnt að starfrækja framhaldsskóla og háskóla með eðlilegum hætti verður ungt fólk illa úti. Ef skólahald leggst jafnvel tímabundið af þá fer það sérstaklega illa með þá sem standa veikt fyrir. Slíkt rask á skólahaldi er líklegt til þess að hafa félagslegar og efnahagslegar afleiðingar til langs tíma.“

Hann segir valkostina í stöðunni tvo. Öflugar sóttvarnir við landamæri, eða miklar sóttvarnir innanlands. Séu sóttvarnir við landamæri öflugar, geti innanlandsvarnir á móti verið mildari, en séu takmarkaðar sóttvarnir við landamæri þurfi þær að vera þeim mun öflugri innanlands. „Stjórnvöld þurfa að ákveða hversu mikið eigi að örva eftirspurn eftir ferðaþjónustu á næstu mánuðum með því að auðvelda ferðir um landamæri.“

Að lokum segir hann þjóðfélagið standa frammi fyrir „einhverju alvarlegasta vandamáli lýðveldistímans“. Við slíkar aðstæður sé mikilvægt að ólík sjónarmið komi fram, og ráðamenn sýni ábyrgð með því að „bregðast við umræðu í samræmi við embætti þeirra og ábyrgð.“