Tækifæri er á að lækka rekstrarkostnað FL Group um 30-35%, miðað við niðurstöðu rekstrar í ár, að því er fram kom í máli Jóns Ásgeirs Jónssonar, stjórnarformanns FL Group, á hluthafafundi í morgun. Stór þáttur í þeirri aðgerð er að loka skrifstofunni í Kaupmannahöfn og sameina hana starfsseminni í London.

Hár rekstrarkostnaður FL Group hefur sætt gagnrýni. “Að sumu leyti má taka undir það en að öðru leyti má benda á að það hefur verið gerð upp fortíðarmál tengd Icelandair. Það hefur verið sagt að það séu ansi margir forstjórar á launum hjá félaginu en það er verið að ganga frá þeim málum,” sagði Jón Ásgeir. Ennfremur nefnir hann opnun skrifstofu í Kaupmannahöfn og London sem kostnaðarsama aðgerð á árinu.

Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, sagði á hluthafafundinum að betur verði greint frá kostnaði félagsins samhliða kynningu á ársuppgjörinu.