„Það eru klárlega tækifæri fyrir fyrirtækin í þessari kreppu. Þrátt fyrir að auglýsingamarkaðurinn hafi minnkað um kannski 30% þá eru þar tækifæri fyrir þá sem huga að markvissu markaðsstarfi og eru tilbúnir að fjárfesta til framtíðar. Þeir sem ekki hafa stundað markvisst markaðsstarf og ekki verið sjáanlegir á markaðnum tapa meiru en hinir,“ segir Hugi Sævarsson, framkvæmdastjóri Birtingahússins ehf.

Aðgengi að stórfyrirtæki

Fyrirtæki Huga hefur nýverið undirritað samning við Carat sem er stærsta óháða markaðssamskiptastofa heims og er leiðandi í stafrænum boðmiðlunarlausnum. Í samstarfssamningnum felst m.a. ráðgjöf vegna auglýsingabirtingar, markaðsgreiningar og rannsókna. Carat, sem er hluti af Aegis Group plc, var stofnað 1968 og nær til 70 landa og er með 5.200 manns í vinnu. Það er skráð á hlutabréfamarkaðnum í London. Birtingahúsið hefur aftur á móti verið starfandi á íslenska markaðnum síðan árið 2000 og var fyrst félaga hérlendis til að sérhæfa sig í áætlanagerð og fjárfestingum í auglýsingabirtingum.

Samningur Birtingahússins við Carat felur í sér að erlenda fyrirtækið og viðskiptavinir þeirra fá aðgang að þjónustu og ráðgjöf Birtingahússins er snýr að markaðslegum viðfangsefnum á Íslandi. Birtingahúsið fær um leið aðgang að Carat ásamt systurfélögum þess varðandi fræðslu, rannsóknir og þróun á markaðssamskiptum. Hugi segir að þessi samningur komi í framhaldi af úttekt Carat á íslenskum markaðsfyrirtækjum. Þessi niðurstaða sé því vissulega viðurkenning á faglegri uppbyggingu Birtingahússins og á því starfi sem þar hefur verið unnið.