Nauðsynlegt er að samræma skattaumhverfi hér að Evrópu og gera skattakerfið skilvirkara, sagði Laurens Narrina, skattasérfræðingur hjá PricewatershouseCoopers í Belgíu, á morgunverðarfundi í gær um samkeppnishæfi Íslands fyrir fjármálastarfsemi.

Narrina talaði um hvað Íslendingar þurfi að gera til að styrkja samkeppnisstöðu sína innan Evrópu. „Með því að gera íslenskt skattaumhverfi eftirsóknarverðara fyrir erlend fyrirtæki, græðir ekki aðeins ríkissjóður í formi skatta heldur skapast, með aukinni sókn alþjóðlegra fyrirtækja til Íslands, bæði auður og þekking.“ sagði Narrina. Það getur því verið hagkvæmt að hafa lága skatta á fjármálastarfsemi.

Að mati Narrina eiga Íslendingar að einbeita sér að fjármálastarfsemi, rannsóknar- og þróunarstarfi og skipaflutningum. Íslendingar geta vel keppt við ríki eins og Lúxemborg, Holland, Belgíu og Sviss.

Ísland hefur nokkuð styrka stöðu nú þegar. „Hér er gott umhverfi bæði skattalega og lagalega. Ýmislegt má þó bæta t.d. einkaréttargreiðslur. Það er ekki nóg að Ísland sé álitlegur kostur, það þarf að vera fullkomlega sambærilegt, helst betra en önnur ríki“ sagði Narrina.

Mikilvægt er að fríðindi gangi jafnt yfir alla, bæði innlend sem erlend fyrirtæki. „Aukin hnattvæðing, lág skattprósenta og gegnsætt skattkerfi eru þættir sem geta laðað að erlend fjármálafyrirtæki til Íslands“, sagði Þórður Hilmarsson, forstöðumaður Fjárfestingarstofunnar. Mikilvægt er að efla samkeppnishæfni hér á landi og segir Þórður ýmis tækifæri liggja hér, m.a. á flugvallarsvæðinu í Keflavík.

Aukin samvinna nauðsynleg Í pallborðsumræðum kom fram að það vanti öflugri markaðshugsun í skattkerfið á Íslandi.

Til þess hagkvæmt umhverfi verði á Íslandi, sem skapar góð tækifæri fyrir erlend fyrirtæki, þarf aukna samvinnu á milli einkageirans og hins opinbera. Greið samskipti við skattayfirvöld eru lykilatriði og samþætta þarf tvísköttunarsamninga og innanlandsrétt. En nú eru þau mál á höndum tveggja aðila.

Fleiri sérfræðinga vantar á sviði skattaréttar og benti Garðar Valdimarsson, hrl. og löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte, á að það er enginn starfandi prófessor í skattarétti á Íslandi. »